145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið meira andsnúinn þessu máli en fylgjandi og ég er búinn að pæla svolítið mikið í því.

Ég er farinn að efast um að þessi breyting sé það slæm miðað við vandamálið sem mér finnst mikilvægast að leysa, og það er að enginn líði fátækt. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki frekar skynsamlegt að búa þannig um almannatryggingakerfið að fólk falli ekki milli skips og bryggju frekar en að hafa reglurnar um sveitarfélög þannig að þau geti ekki skilyrt fjárhagsaðstoð. Ég velti því með öðrum orðum fyrir mér hvort þetta sé ekki eitthvað sem eigi heima á höndum ríkisins í almannatryggingakerfinu eða einhverju sambærilegu kerfi frekar en þessu.

Nú skilst mér að sveitarfélögin hafi skilyrt slíka fjárhagsaðstoð, einhver þeirra alla vega, og þau telja það nú þegar löglegt og að þetta mál sé einungis til þess að það sé á hreinu og lagatúlkunin sé skýr. Ég sé það ekki í sjálfu sér sem eitthvert úrslitamál með hliðsjón af því hvernig lagatúlkunin síðan er á endanum meðal sveitarfélaganna. Þau framkvæma þessar skerðingar og þau gera það að sínu mati samkvæmt lögum. Mér vitandi þá er það bara ekki mjög skýrt í lögunum.

Ég er að velta fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi taka í að leysa þetta vandamál, sem ég er sammála hv. þingmanni um, að fólk falli ekki svona á milli og sé útilokað, með því að gera það í gegnum ríkið, gegnum almannatryggingakerfi eða sambærilegt kerfi. Þarf þetta endilega að vera hjá sveitarfélögunum? Þurfum við endilega að gera þetta þannig að við meinum sveitarfélögunum að skilyrða fjárhagsaðstoð?