145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það má kannski segja að það sé frekar bagalegt að við skulum ekki hafa allar upplýsingar sem kallað var eftir. Ég leyfi mér að vona að kallað verði eftir þeim og að þær liggi fyrir. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að eitt það mikilvægasta í öllum málum af þessu tagi eru öflugar upplýsingar, tölulegar upplýsingar, um það hvað er í gangi og hvernig kerfið virkar.

Ég hef áður komið með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um brottfall fatlaðra nemenda úr skólum. Þá kemur í ljós að engar upplýsingar eru til um það. Það hefur líka komið fram áður að ekki eru til neinar sérstakar upplýsingar um þessa sérstöku hópa í samfélaginu þannig að ekki er hægt að meta hver þörfin er og hvar hallar á.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum sem samfélag að herða okkur enn betur í að safna upplýsingum og hafa þær við höndina þegar við setjum lög og reglur. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að við gerum hlutina rétt, það segir sig sjálft.

En eins og fram hefur komið hafa sveitarfélög verið að beita vægum skilyrðingum eða úrræðum til að fá fólk til virkni og kannski er betra að hafa þetta í lögum frekar en vera ekki með það og kannski reyna, eins og hér hefur komið fram og ég nefndi áðan, að hafa þetta jákvætt. Mér finnst það eiginlega eiga við í öllu. Við eigum að geta rætt okkur niður á niðurstöður sem eru jákvæðar og sem samstaða er um. Eins finnst mér það vera í þessu máli, það er ekkert langt á milli í þessu. Við ættum að geta komið okkur niður á niðurstöðu sem allir eru þokkalega sáttir við. En ég tek undir það með hv. þingmanni að við þyrftum að hafa fleiri gögn og fá upplýsingar. Vonandi fáum við það.