145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Að þessu sinni ætla ég að gera að umtalsefni það sem birst hefur í nokkrum fjölmiðlum um kostnað krabbameinssjúkra sjúklinga hér á Íslandi til samanburðar við það sem gerist í nágrannalöndum okkar sem við viljum oft bera okkur saman við. Í tímariti Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, birtist grein eftir Jón Eggert Víðisson, stjórnarmann í úthlutunarnefnd samtakanna. Þar segir meðal annars að greiðsluþátttaka krabbameinsveikra hafi tvöfaldast frá árinu 1983. Það sé mikill munur á því í löndunum í kringum okkur. Jafnframt birtist viðtal í fjölmiðlum við Ragnheiði Guðmundsdóttur sem nýlega hefur greinst með krabbamein á lokastigi þar sem hún segir að það taki mjög á andlegu hliðina að hafa fjárhagsáhyggjur á sama tíma og barist er við lífshættulegan sjúkdóm.

Í tímariti Krafts er svo tekið dæmi af nokkrum Íslendingum sem voru svo heppnir að búa í útlöndum þegar þennan illvíga sjúkdóm bar að garði. Þar er gerður samanburður á því hvað þeir hefðu þurft að borga hér á Íslandi og hvað þeir borguðu í útlöndum. Þeir segja að í nágrannalöndunum hafi þeir nánast aldrei þurft að taka upp veskið. Jón Eggert lýsir því sem hann lenti í þegar hann bjó í Frakklandi þar sem hann þurfti aldrei að taka upp veskið og félagsráðgjafi sá um öll hans mál sem sneru að veikindum hans á meðan á þeim stóð. Síðan nefnir hann líka það sem við vitum, að krabbameinsmeðferð hefur í för með sér skerta starfsgetu í flestum tilfellum, að ekki sé talað um mjög háan lyfjakostnað.

Það sama kemur fram í reynslusögu Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem birtist á bleikt.is. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ragnheiðar bíður ærið verkefni næstu mánuðina, en auk álagsins sem fylgir því að takast á við þetta nýja hlutverk í lífinu fær hún kvíðaköst út af fjárhagsáhyggjum. Að hennar sögn er mjög kostnaðarsamt að veikjast alvarlega á Íslandi.“

Í lok greinarinnar (Forseti hringir.) kemur fram að nokkrir aðilar hafa opnað styrktarsjóð til þess að styrkja viðkomandi einstakling í þeirri baráttu sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Viljum við Íslendingar hafa svona heilbrigðiskerfi á (Forseti hringir.) Íslandi? Er fólk ekki að kalla eftir (Forseti hringir.) breytingum á þessu með undirskriftasöfnuninni sem nú telur brátt 80.000 nöfn. Ég segi jú við því, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna