145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[15:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það mál sem við göngum nú til atkvæða um er mikið réttlætismál og mjög gott dæmi um ávinning af Evrópusamvinnu þar sem fólk fær að losa sig undan ofbeldi eigin stjórnvalda ef eigin stjórnvöld fólks kjósa að hlaða upp biðlistum eftir brýnni velferðarþjónustu.

Nú er staðan sú að fullt af fólki við góða heilsu að öðru leyti fær að heyra að það þurfi að bíða í á annað ár eftir mjaðmaskiptaaðgerðum. Þetta er óþolandi stjórnarstefna og það er mjög mikilvægt að gefa fólki val um að geta fengið aðgerðir gerðar annars staðar ef ríkisstjórn ákveður að haga málum með þessum hætti.

Við stöndum að breytingartillögu sem nefndin leggur til í trausti þess að hún verði ekki nýtt til þess að hneppa fólk hér í átthagafjötra og koma í veg fyrir að það geti nýtt sér ávinninginn af þessari tilskipun. Þetta er mikið framfaramál og mikilvægt til þess að stjórnvöld þvingist til að fjármagna (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfið með eðlilegum hætti.