145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og framlagning stjórnarmála.

[13:56]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargott svar og það að reyna að minnka áhyggjur mínar, sem má segja að honum hafi næstum því tekist. Hins vegar eru búvörusamningarnir náttúrlega ekki aðeins kaup og kjör. Búvörusamningarnir eru til þess að stuðla að því að hægt sé að greiða niður ákveðna afurð. Þegar hæstv. forsætisráðherra lýsir þeim er hann í raun og veru að lýsa einhverjum bændalaunum í stað þess að lýsa þeim á þann hátt sem mér og þingheimi þætti eðlilegra, að standa í samningum fyrir opnum tjöldum. Hér er um að ræða útdeilingu á íslensku skattfé og það er alveg þess virði að líta á það hvernig því er útdeilt, svo ekki sé verið að mismuna fólki eftir þjóðfélagsstéttum, eftir því hvort um er að ræða bændur eða borgara, og greiða þeim út laun.