145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

virðisaukaskattur.

406. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, um útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa. Þetta er mjög einfalt frumvarp. 1. gr. frumvarpsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 8. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er útleiga veiðiréttar skattskyld, svo og sala veiðileyfa þegar um er að ræða fast gjald, óháð veiðifeng.“

Lagt er til að virðisaukaskattsskyld verði útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa sem ekki er bundin aflamagni á þann hátt að líta verði á hana sem virðisaukaskattsskylda vörusölu. Skatthlutfall verður fyrstu 18 mánuðina eftir gildistöku samkvæmt neðra þrepi 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt. Þar eftir verður það samkvæmt efra þrepi 1. mgr. 14. gr. laganna. Með því verður undanþágan sem stangveiði hefur notið frá því að greiða virðisaukaskatt afnumin.

Þetta er mál sem þáverandi hv. þm. Pírata Jón Þór Ólafsson lagði fram og þá var það í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðslur og meintan ofurkostnað af þeim, sá kostnaður er reyndar ekki hár ef út í það er farið. Þá hafði hv. þingmaður komist að því að þarna væri ónýttur skattstofn og lagði því til þessa breytingu. Því miður náði þetta frumvarp ekki það langt á síðasta þingi að það fengjust um það einhverjar umsagnir en við fundum alla vega aldrei nein rök gegn því að nýta þennan skattstofn eins og aðra skattstofna, þ.e. stangveiði og útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa þegar um er að ræða fast gjald.

Þar sem við leggjum oft til að eitthvað sé gert sem kostar ríkissjóð peninga kemur oft upp, reyndar alltaf, sú krafa að maður sjái þá til þess að viðkomandi verkefni eða viðkomandi útgjaldaaukning sé fjármögnuð með einhverjum hætti eða tekin af öðrum útgjaldalið. Því leggjum við þetta til sem skattstofn, til þess að geta svarað því með að okkar mati mjög málefnalegum hætti hvaðan fé á að koma til að nýtast í verkefni á borð við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þetta frumvarp er þó ekki lagt sérstaklega fram í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðslur en eftir það sem gekk á á síðasta þingi þótti okkur upplagt að leggja það aftur fram. Meðflutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Björt Ólafsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Ég hlakka til að sjá umsagnir um þetta mál. Ef það eru til rök gegn því að gera þetta eru þau mér óþekkt en auðvitað er málsmeðferð þingsins hugsuð til þess að hægt sé að taka við mótrökum. Ef það eru góð rök fyrir því að útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa sé ekki virðisaukaskattsskyld er sjálfsagt að taka þau til greina en eins og fyrr greinir er einfaldlega um ónýttan skattstofn að ræða að okkar mati, sem er um að gera að nýta til þess að fjármagna þau verkefni sem ríkið þarf vissulega að standa að.