145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Réttur manna til að semja um kaup og kjör, samningsrétturinn, er bundinn í stjórnarskrá okkar og er lykilatriði í því að fólk geti sótt sér þá atvinnu sem það vill og barist fyrir bættum kjörum í þeirri atvinnu. Að undanförnu höfum við rætt talsvert um það hvernig við getum fellt samninga inn í einhvers konar ramma. Hér hefur mikið verið rætt um hið norræna vinnumarkaðsmódel sem sé líklegt til að skapa aukna sátt í samfélaginu og aukna sátt á vinnumarkaði, en á sama tíma höfum við séð þróun mála á innlendum vinnumarkaði sem vekur áhyggjur. Á síðustu dögum er það auðvitað þróun mála í Straumsvík sem hv. þingmenn hafa væntanlega fylgst með sem og almenningur í landinu, uppskipunarbannið núna í dag og hvernig yfirmenn reyndu að ganga þar í störf almennra starfsmanna sem síðan var talið verkfallsbrot. Þetta vekur auðvitað spurningar um þann aðila sem rekur álverið, Rio Tinto Alcan, sem á að baki langa og mjög skrautlega sögu þegar kemur að kjaradeilum. Þess er skemmst að minnast að sex mánaða vinnudeila stóð yfir í álveri félagsins í Kanada, svokölluðu Alma-álveri, þar sem 800 verkamönnum var ekki heimilað að mæta til vinnu í sex mánuði, gríðarlega hörð deila sem leystist sem betur fer á endanum. En það vekur auðvitað upp spurningar þegar skoðuð er ferilskrá þessa ágæta fyrirtækis að þar virðast vinnudeilur vera alveg gríðarlegar, mun harðari en gengur og gerist.

Ég vil nota tækifærið og heita á bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins að tryggja að þetta verði ekki reglan á íslenskum vinnumarkaði, að hér verði gengið fram með þeim hætti að allt sé logandi, jafnvel ósagðar hótanir í loftinu um örlög viðkomandi vinnustaðar. Það má ekki verða reglan á íslenskum vinnumarkaði. Og við sem tölum í öðru (Forseti hringir.) orðinu um að við viljum sjá aukna sátt á íslenskum vinnumarkaði þurfum að huga að því í gjörðum okkar hvernig (Forseti hringir.) við ætlum að tryggja þá sátt. Þetta er stórmál fyrir íslenskan vinnumarkað (Forseti hringir.) hvernig þessi deila mun leysast, en auðvitað vona ég (Forseti hringir.) eins og aðrir að þar náist sættir.


Efnisorð er vísa í ræðuna