145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar Norður-Kórea gerði tilraunasprengingu með kjarnorkuvopn í janúar síðastliðnum voru þjóðir heims fljótar að fordæma verknaðinn, eðlilega. Þegar sama þjóð skaut upp gervihnetti sem flestir líta á sem sönnun þess að þeir hafi getuna til að senda af stað langdrægar sprengjuflaugar var sá verknaður einnig fordæmdur, aftur eðlilega. Það er hins vegar umhugsunarefni að þegar Bandaríkjamenn gerðu tilraun í janúar með nýja gerð „lítilla kjarnorkusprengja“ í Nevada-eyðimörkinni heyrðust nálega engin andmæli frá alþjóðasamfélaginu. Aftur heyrðist lítið þegar Bandaríkjamenn gerðu fyrir nokkrum dögum tilraun með langdræga kjarnorkuflaug. Á sama tíma tilkynnir Rússlandsstjórn um víðtæka uppbyggingu á kjarnorkuvopnabúrum sínum. Breska ríkisstjórnin gerir á næstu mánuðum ráð fyrir að taka ákvörðun um endurnýjun sinna kjarnorkuvopna. Um kjarnorkuuppbyggingu kínverska hersins held ég að þurfi ekkert að fjölyrða.

Það er þó ekki svo að öllum ríkjum heims standi á sama um þessar fregnir, því að í fyrra kom saman vinnuhópur 123 ríkja Sameinuðu þjóðanna sem vilja finna leiðir til þess að banna og útrýma kjarnorkuvopnum. Ísland er hins vegar ekki í þessum hópi. Hvernig stendur á því? Eru íslenskir þingmenn kannski almennt hlynntir kjarnorkuvopnum? Ég held ekki. En þegar á hólminn er komið hefur Ísland hins vegar ítrekað skipað sér í hóp með kjarnorkuveldunum og Ísland hefur hreinlega greitt atkvæði gegn því að kjarnorkuvopn verði bönnuð eða við höfum í besta falli setið hjá.

Í nóvember síðastliðnum lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um atkvæðagreiðslur Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og um afstöðu til kjarnorkuvopna. Mér hefur því miður ekkert svar borist við þeirri fyrirspurn.


Efnisorð er vísa í ræðuna