145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Á síðasta þingi lögðum við píratar fram þingmál er lýtur að jöfnu aðgengi að internetinu um land allt. Þá sögðu okkur þingmenn sem áttu sæti í nefnd stjórnarinnar að verið væri að móta tillögur með starfshópi. Síðan hefur margt gerst.

Mig langar að spyrja hv. þm. Pál Jóhann Pálsson hvort hann hafi ekki áhyggjur af því sem kemur fram í ályktun fulltrúa sveitarfélaganna á Austurlandi. Fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi mótmæla af miklum þunga því uppleggi sem Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi hefur verið kynnt af hálfu starfshóps um Ísland ljóstengt og varðar útdeilingu þeirra 500 millj. kr. sem ætlað er til þess verkefnis á fjárlögum.

Með því er verið að etja sveitarfélögum saman í einhvers konar uppboð um mjög takmarkaða fjármuni og í raun og veru velta ábyrgð á kostnaði við ljósleiðaravæðingu á Íslandi yfir á sveitarfélögin. Minni sveitarfélög, sem enga burði hafa til þátttöku í slíku kapphlaupi, munu sitja eftir og bilið á þjónustustigi í fjarskiptum meðal íbúa þessa lands mun vaxa enn frekar. Þessi farvegur gengur þvert á þær væntingar sem gefnar voru þegar starfshópurinn skilaði skýrslu sinni á vordögum 2015 og forsætisráðherra kynnti.

Þess er krafist að þessar tillögur verði þegar í stað teknar til endurskoðunar og jafnframt ítrekaður stuðningur við þær hugmyndir sem fram koma í áðurnefndri skýrslu, enda var verkefnið jafn mikið byggðamál og uppbygging háhraðafjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það að þetta falli ekki undir jafnt aðgengi að internetinu, ef fara á í samkeppni um einhvern kvóta. Stendur til að laga þetta eða er þetta stefna ríkisstjórnarinnar?


Efnisorð er vísa í ræðuna