145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni mál sem fellt var niður í dag eða í gær eftir sex ára málarekstur, mál sem byggt var á reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál sem höfðu ekki þegar málið hófst lögskilið samþykki ráðherra. Þetta er Aserta-málið svokallaða þar sem saksóknari í málinu og þáverandi forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, Gunnar Andersen, hefja málið á blaðamannafundi þar sem þeir tilkynna að til standi að í samvinnu við Seðlabankann, efnahagsbrotadeild og Fjármálaeftirlitið að hefja rannsókn í þessu máli. Í ljós kom í máli Samherja, sem byggt var á sömu reglum um gjaldeyrismál, að ekki væri hægt að fylgja því eftir á nokkurn hátt af því reglurnar voru ekki í gildi.

Virðulegur forseti. Nú hafa fjórir ungir menn setið undir því í sex ár að ákveðið var að höfða mál á hendur þeim á grundvelli reglna um gjaldeyrismál sem höfðu ekki lögsamþykki ráðherra. Þeir voru nafngreindir fyrir sex árum, virðulegur forseti. Nú er málinu vísað frá eftir að þeir hafa verið sýknaðir, m.a. í héraðsdómi.

Það er algjörlega ljóst að í þessu máli var farið rangt af stað. Í þessu máli er réttur brotinn á einstaklingum.

Réttarríkið í tveimur málum, byggðum á þessum reglum Seðlabanka Íslands sem ekki höfðu lögskilið samþykki ráðherra, hafa kostað einstaklinga ekki aðeins mannorðið heldur fjármuni í sex ár, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Hver ætlar að axla ábyrgð á málatilbúnaði af þessu tagi? Er það Seðlabankinn, (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlitið og ríkissaksóknari, eða hver ætlar að axla ábyrgð (Forseti hringir.) og sýna fólki og borgunum í landinu að svona er ekki farið með fólk? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna