145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

505. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Fyrirspurnatími okkar þingmanna Vinstri grænna við forsætisráðherra heldur áfram. Ég vil spyrja hann út í hvernig stjórnvöld hyggist standa að framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Þann 21. september 2015 tóku heimsleiðtogarnir sig saman á fundi í New York og samþykktu mjög metnaðarfull og í raun áður óþekkt markmið, að segja má, um að stuðla að sjálfbærri þróun, útrýma fátækt og gera heiminn betri, bæði fyrir okkur mannfólkið sem þar búum en líka í þágu náttúrunnar og umhverfisins svo að lífið hér á jörðinni geti þróast áfram án stórkostlegra vandræða.

Meðal þessara markmiða, sem tóku gildi þann 1. janúar sl., og leystu þar af hólmi þúsaldarmarkmiðin, eldri þúsaldarmarkmið sem voru sjö að tölu og mun færri en hér er — hér erum við að tala um 17 metnaðarfull markmið þar sem fyrsta markmiðið, og kannski það veigamesta, er að allt skuli gert sem hægt er til að útrýma fátækt hvar sem hún birtist og í öllum sínum formum, eins og þar er sagt. Í dönsku útgáfunni, ef forseti leyfir, sem ég hef undir höndum, segir til dæmis: Afskaf fattigdom i alle dens former overalt.

Önnur lönd hafa síðan verið að undirbúa hvernig þau taka á þessu og hrinda þessu í framkvæmd og lagðar eru skyldur á þá sem standa að þessari yfirlýsingu um að stuðla að framgangi þessara markmiða.

Ég hef þar af leiðandi leyft mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort gerð hafi verið áætlun um eftirfylgni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og ef svo er hvar þá áætlun sé að finna eða í hvaða farvegi það mál er.

Í öðru lagi spyr ég hvort og með hvaða hætti gerð verði grein fyrir eftirfylgni við markmiðin af Íslands hálfu bæði hér innan lands hjá okkur sjálfum og á erlendum vettvangi. Þetta er eitt af því sem gert er ráð fyrir að aðildarríkin geri, þ.e. að uppfæra reglubundið stöðuna og vera með eftirfylgni og fylgjast með hvernig menn telja að miði í átt til þessara markmiða þannig að hvert og eitt land fyrir sig, og síðan þau öll saman, leggi gögn á borðið um hvernig mál eru að þróast.

Í þriðja og síðasta lagi spyr ég hvort tekin hafi verið ákvörðun um hvar framangreind verkefni verða vistuð innan Stjórnarráðsins. Verða þau að einhverju leyti falin öðrum ráðuneytum ef þau verða ekki hjá forsætisráðuneytinu? Væntanlega sjá menn ekki fyrir sér að utanríkisráðuneytið eitt fari með þetta mál. Af því að forsætisráðherra sjálfur var í fararbroddi, þegar þetta var undirritað af Íslands hálfu, þá hef ég gefið mér að fyrst um sinn að minnsta kosti sé málið í hans (Forseti hringir.) höndum og þá að koma því í einhvern farveg innan Stjórnarráðsins enda heyrir verkaskipting innan Stjórnarráðsins hvort sem er undir forsætisráðherra.