145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

516. mál
[17:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hvað líði endurskoðun á því skilyrði sem nú gildir um veitingu uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra að bifreiðarkaupandi aki sjálfur bifreiðinni eða annar heimilismaður.

Skilyrðið sem hv. þingmaður vísar til í fyrirspurn sinni er að finna í reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Áður en þetta skilyrði var sett höfðu komið upp tilvik þar sem styrkurinn hafði verið misnotaður með þeim hætti að aðrir en hinn hreyfihamlaði notuðu bíla sem fjármagnaðir höfðu verið með opinberum styrkjum. Tilgangur skilyrðis þessa er því að ná því markmiði að styrkurinn nýtist hinum hreyfihamlaða og til að fyrirbyggja að aðrir færi sér styrkinn í nyt. Starfshópurinn eins og hv. þingmaður fór í gegnum fjallaði um þá gagnrýni sem þetta skilyrði hefur sætt og kemur fram í skýrslu hans það álit að rétt sé að heimila undantekningar frá skilyrðinu. Hins vegar er settur ákveðinn fyrirvari í skýrslunni varðandi tillöguna með ábendingu um að það verði með mjög ströngum skilyrðum, t.d. í tengslum við þá aðila sem búa sjálfstætt og hafa persónulega aðstoð samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi.

Tekið er undir það í skýrslunni að styrkir til bifreiðakaupa eigi fyrst og fremst að nýtast hinum hreyfihamlaða en að því markmiði eigi að vera hægt að ná með öðrum aðferðum en að miða alfarið við að viðkomandi hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta mundi hins vegar krefjast aukins fjármagns til málaflokksins. Staðan er einfaldlega sú að ekki er gert ráð fyrir því fjármagni í fjárlögum þessa árs.

Ég tel hins vegar rétt að þetta skilyrði reglugerðarinnar verði skoðað betur í samræmi við tillögu nefndarinnar og leitað verði leiða til að breyta því og heimila undantekningar í vissum tilfellum án þess þó að útgjöld til málaflokksins þurfi að stórhækka vegna þessa.

Í seinni fyrirspurn þingmannsins, sem ég geri ráð fyrir að hún vilji fara aðeins nánar í gegnum en ég ætla að fá að nýta tíma minn til að koma inn á, er spurt hvort aðrar breytingar séu fyrirhugaðar á bifreiðamálum hreyfihamlaðs fólks, samanber tillögur sem settar eru fram í skýrslu starfshóps um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks frá því í desember 2014, sem þingmaðurinn vísaði einmitt til, og í hverju breytingarnar séu þá fólgnar.

Ég tek undir með þingmanninum að þarna má finna margar ágætar tillögur og líka mjög praktískar tillögur. Það var raunar ánægjulegt að sjá hvernig menn náðu utan um mikilvægt verkefni en reyndu samt að ramma líka inn fjármálin og fjármögnunina á verkefninu.

Lagt er meðal annars til að ákvæði laga um styrki til mikið hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa og styrki vegna kaupa á stórum og breyttum bílum færist í lög um sjúkratryggingar og að sjúkratryggingastofnun annist framkvæmd þeirra. Þá er lagt til að teknir verði upp svokallaðir samgöngustyrkir, sem ég held að væri veruleg bragarbót á kerfinu, sem greiðist öllum þeim sem metnir hafa verið hreyfihamlaðir óháð bifreiðaeign og komi í stað uppbótar vegna reksturs bifreiða hreyfihamlaðra einstaklinga. Rökin fyrir þeirri breytingu eru þau að þeir einstaklingar sem metnir eru hreyfihamlaðir en eiga ekki bíla fá ekki stuðning frá ríkinu til að mæta aukakostnaði vegna hreyfihömlunar sinnar.

Margar af þessum tillögum krefjast talsverðs undirbúnings og varðandi þá ætlun að flytja hluta málaflokksins til sjúkratryggingastofnunar þarf að sjálfsögðu að gera það í samráði við heilbrigðisráðherra.

Talsvert er líka vikið að aukinni samvinnu milli Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkratryggingastofnunar þegar kemur að vali á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða einstaklinga til að tryggja að fjármunir nýtist sem best þannig að bifreiðin henti fyrir hjálpartæki sem viðkomandi notar eða þann búnað sem setja þarf í bifreiðina. Með breytingum á framangreindri reglugerð sem öðlaðist gildi 1. nóvember þá veitti ég umræddum stofnunum heimild til að hafa frekari samvinnu sín á milli um þessi atriði sem og að opna fyrir heimild til greiðslu hæstu styrkja vegna fatlaðra barna yngri en 10 ára.

Ég vil gjarnan fá að halda því til haga í þessari umræðu að uppbætur og styrkir til bifreiðakaupa hækkuðu um 20% þann 1. nóvember síðastliðinn og með því móti var talsvert komið til móts við þær tillögur sem fram komu í skýrslu starfshópsins þar sem mikil áhersla var lögð á hækkun þessarar fjárhæðar. Ég vona að þetta endurspegli að við erum að vinna að framkvæmd þeirra tillagna sem komu fram í skýrslunni. Við erum að reyna að bæta úr þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki, en ég vil að sjálfsögðu beita mér fyrir því að frekari breytingar verði gerðar sem muni nýtast hreyfihömluðum einstaklingum og auka enn frekar á frelsi þeirra og möguleika til sjálfstæðs lífs.