145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Heilbrigðismálin eru mér hugleikin þessa dagana eins og fleirum, líkt og að minnsta kosti 82 þúsund Íslendingum öðrum. Nú er svo komið að Ísland hefur hrapað niður EHCI-listann, European Health Consumer Index, yfir heilbrigðiskerfin í Evrópu. Ísland hefur fallið úr þriðja sæti á þessum lista, þar sem það var á árunum 2009 og 2012, niður í áttunda sæti árið 2015.

Á árunum 2009 og 2012 lögðu kannendur á það áherslu að mæla hvernig Evrópulöndin stæðust tiltekna áhættuþætti af efnahagskreppunni. Þá var sérstaklega litið til hættunnar á auknum biðtíma eftir aðgerðum, tilhneigingar til aukinnar kostnaðarhlutdeildar sjúklinga og hættunnar á minnkandi aðgengi að nýjum lyfjum. Árið 2009, ári eftir hrun, stóðst Ísland þetta próf með prýði og aftur fjórum árum síðar. En núna, átta árum síðar, undir stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, bregður svo við að allir skerjagarðarnir, sem fyrri ríkisstjórn tókst að sneiða hjá í kreppuástandi, standa nú hátt upp úr sjó og ríkisstjórnin steytir á þeim flestum.

Biðlistar eftir aðgerðum og þjónustu hafa aldrei verið lengri, kostnaðarhlutdeild sjúklinga ekki heldur, og aðgengi að nýjum lyfjum þannig skert að að minnsta kosti á síðasta ári voru sjúklingakvótar við lýði. Einkavæðingaráform eru eina framtíðarsýnin sem boðið er upp á. Nú þegar góðærið er tekið við, þökk sé ráðdeild fyrrverandi ríkisstjórnar, nú þegar rekstrarafgangur er á ríkisbúskapnum, þá nær Ísland ekki máli frá því sem áður var í heilbrigðismálum heldur hrapar niður um fimm sæti (Forseti hringir.) í öllum helstu prófsteinum kreppunnar sem fyrri ríkisstjórn stóðst með prýði. Þetta sýnir svart á hvítu að það skiptir máli hverjir stjórna.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna