145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[18:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Án þess að ætla að lengja umræðuna mikið þá langar mig hér við 2. umr. að lýsa yfir ánægju með að þetta frumvarp til laga sem hv. þm. Páll Valur Björnsson er fyrsti flutningsmaður að hafi fengið svo góða meðferð hjá hv. velferðarnefnd sem raun ber vitni og að nefndarmenn allir, að þeim frátöldum sem ekki hafa getað verið við afgreiðslu málsins, setji nafn sitt undir nefndarálitið.

Ég held að annars vegar sé hér verið að leggja til gríðarlega mikla og nauðsynlega réttarbót fyrir verðandi foreldra sem upplifa það eða lenda í því að eignast andvana barn þegar þó nokkuð langt er komið á meðgönguna. Fyrir þá er þetta mikið hagsmunamál og klárlega til mikilla bóta. En svo finnst mér þetta líka vera samfélagslegt mál, það má líka nálgast það þannig, því hér erum við í rauninni að þróa fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfina áfram og ná þannig betur utan um allt það ferli sem fæðingar- og foreldraorlof er. Það held ég að skipti líka máli. Ég held því að málið þurfi að skoðast bæði af hinu persónulega plani, ef svo má segja, og svo líka af samfélagslegu plani. Auðvitað spilar þetta síðan saman.

Þetta tengist kannski þeim vangaveltum sem komu fram undir lok máls hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur og þeim spurningum sem hún velti upp varðandi það þegar annað tilvonandi foreldra fellur frá. Það er kannski næsta skref sem við þurfum að taka. Við erum jú auðvitað samfélag og samfélög breytast, umræða þróast og ég held að þetta geti einmitt verið það sem við eigum að hugsa um og hvernig við getum tekið málið upp á næsta stig.

Á sama tíma þurfum við auðvitað að vinna í því að styrkja almennt fæðingar- og foreldraorlof með því bæði að hækka greiðslurnar og lengja fæðingarorlofstímann. Það tengist svo aftur þeim þingmálum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram um að hafa fæðingarorlof fram að leikskóla.

Mig langar enn og aftur að þakka hv. þm. Páli Vali Björnssyni fyrir að hafa forgöngu um að flytja þetta mál og þakka hv. velferðarnefnd aftur fyrir góða afgreiðsla. Okkur hlýtur öllum að finnast alveg til fyrirmyndar að hér eru einmitt kostnaðartölurnar inni þannig að við þurfum ekkert að velkjast í vafa um kostnaðinn.

Ég held að svo sannarlega sé hægt að segja að fyrir foreldra, verðandi foreldra, og svo auðvitað okkur öll sem getum lent í þeim aðstæðum að eignast andvana barn, sé þetta mikilvægt mál og það er von mín að Alþingi muni samþykkja málið svo að réttarstaða þessa fólks verði betri og að við búum betur að því fólki sem þarf að takast á við þessa erfiðu lífsreynslu.