145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:31]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar innlegg í umræðu um þetta mál, um spilahallir.

Það er merkilegt en mér fannst nánast öll rökin í ræðu hv. þingmanns, sem var mjög góð, styðja þetta mál.

Hv. þingmaður líkti þessu máli við annað mál sem verið hefur til umræðu á þinginu, brennivín í búðir, er það oft kallað. Hér er einmitt verið að fara ÁTVR-leiðina, þ.e. verið er að heimila einum aðila að fara af stað. Farið er í einokun til þess að geta haldið eftirlitsþættinum skýrum og einföldum og það séu engin frekari skref stigin fyrr en reynsla er komin á þetta. Komið hefur fram í rannsóknum sem snúa að þeim vanda sem spilafíkn er, að slík einokun sé til bóta. Það er umfram allt markmið þessara laga að stuðla að sem ábyrgastri spilamennsku.

Hv. þingmaður kom jafnframt inn á að við þyrftum að horfa til Svíþjóðar í þessum efnum. Það er einmitt sú leið sem valin er hér. Reyndar er það þannig í Svíþjóð að sænska ríkið sjálft rekur spilavíti. En í Svíþjóð er litið á spilavanda sem lýðheilsuvandamál, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, og spilavandi hefur verið hluti af lýðheilsustefnu þar frá árinu 2003. Það er því ýmislegt í þeirra stefnu og þeirri vinnu sem hangir saman við frumvarpið eins og það er lagt fram hér og (Forseti hringir.) það er hárrétt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns.