145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki frekar en þingmaðurinn „patent“ lausnir á því hvernig við getum ráðist gegn þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Á kynningunni um spilavanda árið 2012, sem ég vitnaði til og innanríkisráðuneytið lét gera, var talað um að forsenda lagasetningar, sem m.a. mundi snúa að einhvers konar einokun, ætti að vera almannaheill. Það væri forgangsviðfangsefni. Það var eitt af því sem var grunnurinn og menn veltu því fyrir sér að koma á reglum sem stuðluðu að ábyrgri spilun á netinu.

Síðan var, eins og ég kom inn á áðan, talað um að kortleggja peningaspilin, hvað væri í boði og hvernig það væri í boði. Það var líka talað um aðgerðir til að takmarka ánetjun vegna kassanna og allt það. Þetta var grunnurinn að því sem kom út úr vinnu þessarar nefndar. Þá var verið að tala um það. Ef við ætlum að setja lagaramma utan um þetta og ef við ætlum ekki að afneita þessu algjörlega, ef við ætlum að segja: Það er eitthvað í boði og við ætlum að reyna að ná utan um það til þess að geta kortlagt þetta, til þess að geta séð hverju við stöndum frammi fyrir — þá getum við auðvitað bara takmarkað það við innlendan markað. Við ráðum ekki við þann erlenda. Það er auðvitað ekki á færi okkar.

Af því að maður er ekki með bæði augun lokuð veit maður að þetta er til staðar. Það var meðal annars þetta, að koma á virku eftirliti með peningaspilunum og gagnaöflun um markaðinn almennt. Það er eitthvað sem við þyrftum að láta fara fram og höfum í rauninni ekki (Forseti hringir.) klárað. Ég er ekki sérfræðingur í því hvernig við getum leyst þetta en þetta eru alla vega hugmyndir.