145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um búvörulögin sem við munum væntanlega fá til umfjöllunar á þingi eftir páska. Það er ýmislegt í þeim sem við munum þurfa að breyta og getum í rauninni haft jákvæð áhrif á framtíð landbúnaðar á Íslandi. Það er eitt ákvæði sem mig langar að að gera að umfjöllunarefni. Þegar lög um dýravernd voru samþykkt á Alþingi féll brott eða var hætt við grein þar sem gert var ráð fyrir að opinberar greiðslur í landbúnaði gætu fallið niður ef styrkþegi eða bóndi bryti lög um dýravernd, þ.e. fólk sem stæði sig ekki í stykkinu gæti ekki á sama tíma þegið styrki frá ríkinu. Þetta ákvæði var féll síðan einhvern veginn brott vegna þess að talað var um að það þyrfti að gera breytingar á búvörulögum til að það gæti gengið í gegn. Nú munum við sem sagt hafa tækifæri til að gera þessar breytingar á búvörulögum.

Á fund fjárlaganefndar þar sem við vorum að funda um landbúnaðarmálin komu m.a. fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands. Þá spurði ég hvort þeir sæju nokkuð því til fyrirstöðu að Alþingi mundi gera þessar breytingar til að tryggja aukna dýravernd og -velferð á Íslandi. Mér fannst þeir bara heldur jákvæðir. Maður er samt alltaf smeykur jafnvel þótt hagsmunaaðilar séu jákvæðir því að íhaldssemin getur leynst víða. Mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þessu og að við verðum vakandi fyrir því, þegar lögin koma til kasta þingsins, að tryggja það að hægt sé að skerða greiðslur til bænda sem staðnir eru að dýraníði eða hreinlega afnema þær.


Efnisorð er vísa í ræðuna