145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að taka þessa umræðu við hæstv. fjármálaráðherra. Það er brýnt að við skiptumst á skoðunum um þetta mál á Alþingi. Tímans vegna er ástæðulaust að hafa langt mál um áform tryggingafélaganna sem birst hafa að undanförnu um óhóflegar arðgreiðslur til hluthafa á þessu ári. Samtals voru þar áform upp á 9,6 milljarða í arð úr þremur stóru tryggingafélögunum sem hefði samtals þýtt um 30 milljarða greiðslur til eigenda þessara félaga á þremur árum í arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum.

Arðgreiðsluáformin eins og þau stóðu áður en þau komu til endurskoðunar hjá stjórnum félaganna hvað tillögur varðar fyrir aðalfundi voru allt frá því að vera rúmlega helmingur rekstrarhagnaðar síðastliðins árs upp í tvö- og hálffaldur til fimmfaldur eða yfir fimmfaldur rekstrarhagnaður síðastliðins árs. Auðvitað er von að mönnum blöskri við slíkar aðstæður.

Tryggingafélögin reyndu framan af að bera fyrir sig nýtt regluverk gegnum EES-samninginn, svokallaða Solvency II tilskipun. Vandinn er sá að sú tilskipun er ekki komin til framkvæmda á Íslandi þannig að tryggingafélögin ætluðu að taka þetta út fyrir fram í skjóli af því að hún væri á leiðinni. Það er enn kaldhæðnislegra vegna þess að inntak þeirrar tilskipunar á að vera að styrkja grunn tryggingastarfseminnar og gera félögunum skylt að taka inn í áhættu- eða gjaldþolsgrunn sinn víðtækari áhættu en gert er í eldra fyrirkomulagi, þ.e. að fjárhagslegt bolmagn þeirra skuli ekki bara endurspegla hlutföll milli iðgjalda og líklegs tjóns, eins og það hefur verið í rekstri viðkomandi félaga, heldur líka taka tillit til fjárfestingaráhættu vegna þeirra fjármuna sem félögin eru að ávaxta, markaðsáhættu og fleiri þátta. Þar af leiðandi er afar kaldhæðnislegt að nota væntanlega en óinnleidda tilskipun sem á að styrkja grunn þessarar starfsemi til að moka út úr félögunum eigin fé rétt áður en hún kemur.

Sem betur fer hafa harkaleg viðbrögð, m.a. Félags íslenskra bifreiðaeigenda, ekki síst þess og það á þakkir skildar fyrir þau, sem og almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna leitt til þess að stjórnendur félaganna hafa nú að minnsta kosti í tveimur tilvikum ákveðið að endurskoða tillögur sínar fyrir aðalfundina og fara niður í — hvað? Jú, 100% af rekstrarhagnaði liðins árs í arðgreiðslu. Það þætti bærilegt á flestum bæjum. En auðvitað er mikill munur á því og að borga sér tvö- og hálffaldan til fimmfaldan rekstrarhagnað síðasta árs í arð. Þetta skilur eftir spurninguna um hvað á að gera í framhaldinu.

Ég er ekki viss um að þetta fólk hafi endilega skipt stórkostlega um skoðun. Það ískyggilega, við getum sagt dapurlega, við þetta mál eru þau skilaboð sem það ber okkur um hugarfarið sem aftur er komið víða í atvinnurekstri á Íslandi, að nú sé allt hægt og græðgin ein skuli höfð að leiðarljósi. Sá tími er hins vegar ekki runninn upp samanber viðbrögð almennings. Ég held að menn ættu að átta sig á því í viðskiptalífinu á Íslandi að það er lítil eftirspurn eftir græðginni og það er lítil eftirspurn eftir baktjaldamakki og sölu hluta til vildarvina í lokuðu ferli og öðrum slíkum hlutum. Viðbrögðin undanfarnar vikur og mánuði hafa sýnt það og það er vel því að það veitir greinilega ekki af að veita aðhald.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í tengslum við þetta og vegna þess að svo stendur á að Alþingis bíður nú að takast á við innleiðingu tilskipunarinnar: Er í þessu ljósi ekki athugunar virði að setja í lög samhliða innleiðingunni að reynist gjaldþol fyrirtækjanna langt umfram lágmörk skuli þau deila með viðskiptavinum sínum umframgjaldþolinu ef það er tekið út úr fyrirtækjunum? Við getum sem best sett það í lög í tengslum við innleiðingu þessarar tilskipunar og/eða þá að reikna einhvern sérstakan tekjuskattsauka á umframhagnað félaganna eða aðrar slíkar ráðstafanir.

Við erum hér með fákeppnismarkað, það staðfestir Samkeppniseftirlitið, aðspurt í efnahags- og viðskiptanefnd, hreinan fákeppnismarkað, og við þekkjum hann vel þegar þrír hliðstætt stórir aðilar með 30–35% markaðshlutdeild skipta honum nokkurn veginn á milli sín. Sporin hræða í þeim efnum.

Það er líka ljóst að almenningur upplifir það ekki þannig að hann eigi margra kosta völ þegar til dæmis þessi arðgreiðsluáform birtast okkur sem nánast samstilltur taktur tryggingafélaganna í því hvað þau geti leyft sér að gera. Þá sjá menn ekki mikinn tilgang í því að flakka með iðgjöld sín á milli þessara þriggja aðila.

Þetta mál gefur okkur tilefni til að vinna með það áfram. Við fögnum því að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að hörð viðbrögð hafa knúið tryggingafélögin til að endurskoða þessi áform en það þarf að setja fyrir þann leka að þau geti reynt að endurtaka leikinn.