145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér stend ég þá sem fulltrúi eldri kynslóða, genginna kynslóða. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir hér, að það þarf að hafa þessa kynslóðaútreikninga í huga þegar við tökum stefnumótandi ákvarðanir, meðal annars um veitingu námsaðstoðar í fjárhagslegu formi.

Án þess að ég ætli að fara í miklar umræður hér um lánasjóðinn þá finnst mér tvennt blasa við. Annars vegar er þróunin sú, og það hefur komið fram í göngum og úttektum á sjóðnum, að ef ekkert er að gert mun fjárhagsleg áhætta sjóðsins vaxa jafnt og þétt og að lokum verða mikið vandamál fyrir okkur. Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða þess vegna. Hitt er það að mikill styrkur er fólginn í framlagi ríkisins eins og málum er nú háttað, en það er spurningin hvert sá styrkur fer. Það er spurningin um að taka afstöðu til þess hver á að fá styrkinn og hvers vegna og til hvers við viljum nota hann, en allt að því helmingur af því fjármagni sem ríkið setur inn í lánasjóðinn er styrkur.

Spurningin er: Hvert á sá styrkur að renna? Við þurfum að taka afstöðu til þess, virðulegi forseti. Þannig að við fáum (Forseti hringir.) skilvirkt námslánakerfi sem stendur undir sér og nær því markmiði að skapa félagslegan jöfnuð um að geta stundað nám.