145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[16:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er afar ánægjulegt, svo ekki sé meira sagt, að heyra að þarna erum við nú búin að finna mál sem við getum öll verið sammála um að sé gott mál í þessum sal. Megi þau verða fleiri á komandi mánuðum og missirum.

En maður finnur vel, eins og á fundinum á Ísafirði í seinustu viku, óþreyjuna á Vestfjörðum eftir því að fá úrbætur í raforkumálum, tryggara raforkuöryggi. Þar höfum við stigið nokkur ákveðin skref að undanförnu með varaaflsstöðvum í Bolungarvík og nýju, bættu tengivirki á Ísafirði.

Eins og einhver nefndi á fundinum er markmiðið að gera varaaflsstöðina óþarfa þótt ný sé, að hafa raforkuöryggi þannig að ekki þurfi að reiða sig á varaaflsstöðvar heldur að við komum málum í það horf að við tryggjum Vestfirðingum sambærileg tækifæri hvað raforkumál varðar og við höfum annars staðar á landinu.

Tækifæri í atvinnusköpuninni eru sannarlega fjölmörg sem ég hef heyrt af og er að fylgjast með þannig að ég vona sannarlega að við getum séð stór skref á næstu mánuðum. Eins og ég segi, ef hægt verður að hefja framkvæmdir síðar á þessu ári held ég að margir yrðu til þess að fagna því.

Þetta mál á sér langan aðdraganda og þessi nýi vendipunktur er mikið fagnaðarefni. Eins og kom fram í umræðunni hefur þetta mál lengi verið á teikniborðinu og því er fagnaðarefni að við lítum á bætta stöðu í þessu máli og ég vona svo sannarlega að við náum að flytja af því (Forseti hringir.) frekari fréttir á næstu mánuðum.