145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér hefur fengið að þrífast allt of lengi víðtækur ótti við að styggja ríkjandi öfl, hvort heldur það eru öfl á hinum frjálsa markaði eða ríkisvaldið.

Þessi ótti kom mjög skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og mikið var rætt um þetta í kjölfar hrunsins. Allt sem fólk hafði lagt traust sitt á til að tryggja að hér á landi væri upplýst lýðræðissamfélag hafði brugðist en ákveðið var að fara í víðtækar aðgerðir til að læra af reynslunni á mismunandi stigum samfélagsgerðar okkar.

En hvert erum við komin í þessari vegferð? Hvar er þetta nýja Ísland sem átti að rísa upp úr öskustónni? Mér sýnist að við séum komin nánast á nákvæmlega sama stað á svo mörgum sviðum og fyrir hrun. Viðvörunarljósin blikka ótt og títt og ég get ekki orða bundist.

Í gær birti Ketill Sigurjónsson meðal annars eftirfarandi á Orkublogginu sínu, með leyfi forseta:

„Það var athyglisvert að um mitt ár 2014 hafði samband við mig þaulreyndur framkvæmdastjóri hjá einu af stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum. Og sagði mér að forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta yfir samstarfi þeirra við mig. Þetta þótti mér auðvitað merkilegt, enda nokkuð undarlegt að fyrirtæki úti í bæ sé að skipta sér af einstaklingum með þessum hætti.

Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.

Þetta þótti mér líka fróðlegt að heyra. Því með þessu fékk ég í reynd staðfest að ég var að birta upplýsingar sem stóriðjan vill ekki að almenningur viti af. Hér er líka vert að minna á blekkingaleikinn sem átti sér stað árið 2009 og sýnir vel hversu sterkur áróður stóriðjunnar er. En nú var sem sagt orðið augljóst að ég var orðinn upplýsingabrunnur sem stóriðjan vildi kæfa.“

Virðulegi forseti. Inngrip stóriðjufyrirtækja á faglegar umfjallanir sem þeim hugnast ekki á ekki að líðast nú sem áður. Ég skora á þingmenn að beita sér fyrir því að hér fái að ríkja (Forseti hringir.) samfélag þar sem opin umræða fær að vera í friði.