145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Nú eru fimm ár liðin frá upphafi stríðsins í Sýrlandi. Eins og alltaf bera valdagráðugir leiðtogar sem meta líf almennings einskis langmesta ábyrgð á þeim skelfilegu þjáningum sem þeir kalla yfir saklaust fólk. Eins og alltaf eru þjáningar þeirra mestar sem berskjaldaðastir eru. Stríð leggja ekki aðeins líf barnanna í rúst. Þau eitra sálarlíf þeirra og ræna þau tækifærum til þroska og menntunar og leggja þannig framtíð þjóðarinnar allrar í rúst. Öll börn í heiminum eru börn okkar allra og á ábyrgð okkar allra. Engin siðleg persóna vill víkja sér undan því.

Stjórnmálamenn sem þrífast á lágkúru, fordómum, sundrungu og hatri eru langmesta ógnin við friðinn og lífið og lífsgæði fólks. Þeir leiða ógæfu, ofbeldi og dauða yfir samfélög og fjölskyldur og svipta börnin bernskunni og framtíðinni.

Gleymum ekki Hitler, Stalín, Maó og öðrum einræðisherrum illskunnar. Sýnum saklausum fórnarlömbum þeirra þá virðingu að læra af sögunni, því að það eru blikur á lofti. Stjórnmálamenn sem þrífast á þröngsýni og fordómum eru að ná árangri við að hræða allt of margt fólk til að styðja sig. Donald Trump í Bandaríkjunum og stuðningurinn sem flokkur Frauke Petry fær nú í Þýskalandi eru skýr dæmi um þá óhugnanlegu strauma. Eina móteitrið sem virkar á illskuna er mannúð og mannréttindi.

Herra forseti. Ég er enginn trúboði og tek enn síður undir með þeim sem halda því fram að trúarbrögð þeirra séu merkilegri en trú eða trúleysi annarra. En mér finnst kjarni málsins hafa verið vel orðaður af þeim sem margir hér á landi segjast mest taka mark á þegar hann sagði, með leyfi forseta: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Og hann sagði: Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Herra forseti. Það er ekki nóg að játa þessu. Við þurfum líka að breyta samkvæmt þessu.