145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[17:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða eitt af merkustu frumvörpum sem hafa komið fyrir þetta þing, þ.e. breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar leggur hæstv. fjármálaráðherra til ýmiss konar breytingar sem allar hníga að því marki að reyna að draga úr því að áföll verði aftur á fjármálamarkaði í líkingu við það sem hér varð árið 2008.

Ég átti í dag myljandi góðar umræður við hæstv. fjármálaráðherra, m.a. um vaxtamunarviðskipti sem ég tel að sé einn helsti váboðinn sem steðjar að íslenska efnahagskerfinu í dag. Það er í tengslum við þetta frumvarp sem ég vil gjarnan halda þeirri umræðu áfram og spyrja hæstv. ráðherra jafnframt nokkurra spurninga sem varða ýmislegt annað sem hann sagði í dag.

Hæstv. ráðherra féllst á það með mér í umræðunni í dag að vaxtamunarviðskipti fela í sér ákveðinn háska. Þar kom sögu í samskiptum okkar fyrr í dag að hæstv. ráðherra sagðist telja að mikilvægt væri að það yrði með einhverjum hætti búin til tæki innan réttarkerfisins sem færðu stjórnvaldinu heimild til þess að stemma stigu við þessum viðskiptum. Hann talaði um að nauðsynlegt væri að gera það með einhvers konar lögum og reglum. Það er mjög mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra taki svo skýrt til orða.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hefur áður komið fram í umræðum um þetta mál og önnur frumvörp, eins og t.d. frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 57/2015 á síðasta ári, að hæstv. ráðherra standi sig mjög vel ásamt starfsmönnum sínum í því að draga lærdóma af bankaáfallinu 2008. Ég er þeirrar skoðunar að fyrri ríkisstjórnir og þessi ríkisstjórn hafi sameiginlega dregið lærdóma af hruninu sem við erum smám saman að sjá koma fram í þinginu í gervi ýmiss konar tillagna.

Ég tel að í fyrra hafi verið stigið stórt skref til þess að koma í veg fyrir frekari áföll í kerfinu í framtíðinni þegar við samþykktum frumvarp sem meðal annars fól í sér fimm tegundir af eiginfjáraukum sem mætti grípa til við sérstakar aðstæður til þess að gera kröfur til fjármálastofnana um að þau væru betur bólstruð til að takast á við aðsteðjandi vanda. Með þessu frumvarpi stígum við síðan enn eitt skrefið og það er ákaflega mikilvægt skref. Það er bókstaflega verið að taka á flestum öðrum hliðum málsins, t.d. eru settar reglur um vogunaráhættu sem skiptir feikilega miklu máli til þess að koma í veg fyrir stöðu eins og við sáum hér á markaði. Þar þurftu skuldunautar bankanna að afsetja eignir sínar með miklum hraði sem leiddi til þess að það varð verðhrun á eignum, sem aftur leiddi til margvíslegs vanda þeirra og fjármálastofnana sem þau áttu viðskipti við. Þetta er mjög af hinu góða.

Í frumvarpinu er líka verið að færa til dæmis Fjármálaeftirlitinu töluvert ríkari valdheimildir en það hefur í dag, ekki síst til þess að meta sjálft þær áætlanir og þau álagspróf sem fyrirtæki gera sjálf á eigin vegum. Þetta var mjög gagnrýnt á sínum tíma, að Fjármálaeftirlitið þyrfti ekki að taka það út, en hér er verið að reisa skorður við því og bæta úr þeim ágalla.

Sömuleiðis og ekki síst er verið að gera miklu ríkari kröfur til fyrirtækja á markaði um að veita upplýsingar um eigin stöðu og í nægan tíma og Fjármálaeftirlitið fær margvíslegar ríkar heimildir til þess að gefa þeim fyrirmæli um það hvernig þau eigi að gera það. Þetta er mjög jákvætt.

Ég hrósaði hæstv. fjármálaráðherra og þá verður líka að koma skýrt fram að kannski ætti ég að því er þennan pakka varðar að hrósa honum fyrir að vera þó viðbragðssnöggur, vegna þess að efni þessa frumvarps er að meira og minna leyti tekið upp úr tilskipun og reglugerð frá Evrópusambandinu sem settar voru í gang af framkvæmdastjórninni 2013 og byggðust á hinni svokölluðu III. stoð Basel. III. stoð Basel eða Basel III er í reynd samsafn breytinga sem seðlabanki seðlabankanna, sem er einmitt staðsettur í Basel þar sem núverandi seðlabankastjóri okkar Íslendinga var á sínum tíma aðstoðarseðlabankastjóri, dregur saman allan þann lærdóm sem menn töldu að mætti heyja sér úr bankahrunum sem varð ekki bara á Íslandi heldur annars staðar líka. Þetta er fært hér samviskusamlega fram. Þetta er mjög ítarlegt frumvarp, tekur á mörgum hlutum. Ég gæti gert aðfinnslur um ýmislegt orðalag sem kemur þar fram, svo sem eins og að í greinargerðum er allt í einu farið að túlka ýmiss konar mikilvæg ákvæði með þeim hætti að sagt er t.d.: Þetta ákvæði ber að túlka þröngt. Á öðrum stað er sagt: Þetta ákvæði ber að túlka rúmt. Það varðar einmitt eigið fé. Maður setur því spurningarmerki við það að löggjafinn skuli líka gefa svona fyrirmæli um túlkanir. En það er aukaatriði máls á þessu stigi við 1. umr.

Niðurstaða mín varðandi þetta frumvarp og það frumvarp sem varð að lögum í fyrra er að við erum komin mjög langt áleiðis með það að reisa varnarmúra innan kerfisins gagnvart því að svona áföll geti ekki gerst aftur. Það er vel og sjálfsagt að óska hv. fjármálaráðherra og okkur til hamingju með það. Ég tel að til dæmis við vinnslu frumvarpsins í fyrra hafi tekist mjög gott samstarf með þinginu og framkvæmdarvaldinu. Ég vek eftirtekt hæstv. ráðherra á því, af því ég er stundum að nuddast í honum í þessum málum, að ég hef einungis stundað hér uppbyggilega gagnrýni en alltaf veitt honum stuðning míns atkvæðis í þeim málum. Ég tel mjög mikilvægt að samstaða sé um þessi mál.

Þá er ég þeirrar skoðunar að þegar áfanginn sem við náðum í fyrra að samanlögðu þessu frumvarpi og því til viðbótar þriðja pakkanum sem hæstv. ráðherra boðaði í dag séum við eiginlega, þegar búið er að samþykkja það — og ég skildi hæstv. ráðherra þannig að sá pakki sem eftir er mundi a.m.k. sjá dagsins ljós sem frumvarp fyrir lok þessa þings. Ekki skal ég segja hvort okkur auðnist að samþykkja það líka, en við gerum það þá á næsta þingi. Um það þarf að vera samstaða.

Við þurfum sem sagt að ljúka þessu kjörtímabili þannig að við höfum breytt lögum til samræmis við alla þá lærdóma sem við og erlendar stofnanir gátu og hafa dregið af hruninu. Þá tel ég með réttu eða röngu að kerfið sjálft sé komið í mjög gott horf og reiðubúið til þess að takast á við áföll. Þegar við bætist að óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans er núna með allra mesta móti, nálægt 600 milljónum, þá er Ísland í góðu lagi. Eða hvað?

Það er einn váboði. Það er sá váboði sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um í dag. Það er vaxtamunarviðskiptin. Við skulum ekki gleyma því að það voru vaxtamunarviðskiptin sem langt fram eftir upphafi þessarar aldar lögðu grunninn að þeim óskaplegu atburðum sem urðu hér 2008. Á sínum tíma held ég að þau hafi flutt inn í landið næstum því 800 milljarða. Við og hæstv. fjármálaráðherra erum ekki búin að bíta úr nálinni með þá upphleðslu af gjaldeyri eða fjármunum sem hingað streymdu inn. Enn þá á hæstv. fjármálaráðherra eftir eitt mikilvægt skref við undirbúning að afnámi gjaldeyrishafta sem felst í því að nudda burt aflandskrónum, sem eru leifar þessara viðskipta hinna fyrri, þar sem ég held að standi í dag í 230 milljörðum eða svo. Ég gæti haft skoðanir á röðinni á atburðakeðjunni hjá hæstv. ráðherra. Ég hefði kannski gert þetta öðruvísi. Það skiptir ekki máli núna. En það sem ég sé fyrir mér sem váboða í dag, frú forseti, er það að vaxtamunarviðskiptin eru hafin aftur.

Á síðasta ári voru fast að 60 milljarðar sem með þessum hætti byrjuðu að streyma inn í íslenskt samfélag. Í dag birti greiningardeild Arion banka skýrslu eða greiningu sem sýndi að bara á því sem liðið er af þessu ári eru 20 milljarðar komnir inn, 12–20 milljarðar komnir inn í landið á þennan hátt. Ef allt fer sem horfir verða það að minnsta kosti 60 milljarðar á þessu ári, en aukningin getur orðið mjög hröð, breytingin getur orðið mjög hröð.

Við skulum ekki gleyma því að það eru sérstakar aðstæður í heimsbúskapnum núna. Hvað er það sem einkennir hann? Það er alveg hrikalega lágt vaxtastig í útlöndum. Hverjar eru síðustu fréttirnar frá Japan? Jú, þar þurfa bankar að borga 0,25% til þess að fá seðlabankann til þess að taka við sínu fé. Síðustu fréttir frá Bandaríkjunum eru að þar eru vextirnir komnir niður í 0. Á sama tíma búum við hér við mjög hátt vaxtastig og þessi þróun erlendis eykur sogkraftinn. Ef maður á fullt af peningum og vill ávaxta, hvert fer maður með þá? Maður fer með þá til Íslands. Og svona meðal annarra orða og í botnlanga, hvers vegna ættu þeir sem eiga núna 230 milljarða inni á reikningum í seðlabankanum frá vaxtamunarviðskiptunum hinum fyrri að fara út núna? Fá þeir einhvers staðar betri ávöxtun en hérna? Og hæstv. fjármálaráðherra þar að auki búinn að lofa þeim því, eða ég skil hann þannig, að innan tíðar verði gjaldeyrishöftum aflétt í þeim mæli að menn geta þokkalega frjálsir ferðast með fjármuni milli landa.

En spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra í dag var þessi: Þarf ekki að láta stjórnvaldið fá einhvers konar tæki með því að breyta lögum og reglugerðum til þess að geta tálmað þessum viðskiptum? Hæstv. ráðherra sagði jú. Síðan flutti hann ágæta ræðu um það að við þyrftum að bæta grunninn og talaði um vinnumarkaðinn. Ég er honum algjörlega sammála um það, en hæstv. ráðherra er eldri en tvævetur og hann veit að menn gera það ekki eins og að smella fingrum. Það sem ég er að tala um eru kannski næstu tíu mánuðir. Ég er að tala um út þetta ár. Ég er ansi hræddur um að þótt hæstv. ráðherra sé vaskur maður þá breyti hann þessu ekki, m.a. vegna þess að vinnumarkaðurinn er búinn að læsa okkur inn í ákveðna stöðu. Við munum ekki breyta vaxtastiginu í einu vetfangi. Þótt hæstv. ráðherra kynni að lokum að verða bestur allra fjármálaráðherra sem hér hafa starfað þá mun hann ekki ná því í tíma, að ég tel. Það er þess vegna sem ég held að við þurfum að verða okkur út um tæki. Þau kunna að vera með þeim hætti að það sé ekki bara Alþingi sem þarf að leggja þau til, en þetta veit hæstv. ráðherra betur en ég.

Þess vegna ætla ég að spyrja hann aftur út í þetta mál.

Í fyrsta lagi. Með hvaða hætti eigum við að breyta lögum, fyrst hann tekur svo afdráttarlaust til orða eins og í dag? Hvernig telur hann að eigi að breyta lögum og reglum til þess að færa seðlabankanum, eftir atvikum honum eða stjórnvaldinu, vopnin í hendur?

Í öðru lagi. Hann taldi sjálfur að það væri ekki nóg og þá spyr ég hann: Eru einhverjar aðrar leiðir til þess en þær sem hæstv. ráðherra nefndi í dag, lög og reglur?

Svo langar mig í lok ræðu minnar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ég hafi ekki misskilið hann. Þegar við töluðum um tveggja stoða breytingar og aðlögun að því fyrr í dag þá talaði hæstv. ráðherra um að það væri aukinn skilningur hjá Evrópusambandinu gagnvart því hvernig við mundum laga okkur að yfirþjóðlegum stofnunum og hæstv. ráðherra gerði það í tengslum við nýlega för sína til Liechtensteins og Evrópu. En er það ekki öruggt að það er þannig að við munum eigi að síður þurfa að laga okkar kerfi að útgáfunni sem við getum kallað tveggja stoða lausnina af þessum þremur eftirlitsstofnunum sem búið er að setja upp?

Þá langar mig líka undir lokin að spyrja hann: Hvenær telur hann að það muni koma til okkar kasta? Þá er ég að tala um löggjafans, vegna þess að ég er auðvitað að hugsa til þess að þetta eru viðamikil mál. Þetta eru kannski stærstu málin sem við höfum verið með að því er varðar að minnsta kosti samskipti okkar við Evrópusambandið hin seinni ár, eftir bréfið fræga. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi einhvers konar fullvissu um að við gætum beðið með það mál fram yfir þetta kjörtímabil, því að mér er satt að segja til efs ef hæstv. ráðherra er ekki kominn lengra en mér skildist á honum í dag að þetta sjái dagsins ljós á þessum þingvetri. Það þarf að minnsta kosti einn þingvetur til að koma þessum málum frá í gegnum þingið, þetta eru nefnilega viðurhlutamikil mál. Þau eru alveg á jaðri stjórnarskrárinnar.

Ég ætla ekki að þreyta hæstv. ráðherra með skoðun minni á þessu, þetta fullnægir ekki þörfum mínum fyrir hönd stjórnarskrárinnar, en það er önnur saga. Ég hef beint til hans spurningum um vaxtamunarviðskiptin og jafnframt um það hvort hann hyggist koma fram með frumvarp (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili sem varðar (Forseti hringir.) aðlögun okkar að tveggja stoða kerfinu í tengslum við yfirþjóðlegu stofnanirnar.