145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Valdablokkin í landinu beitir kúgun og þöggun og atvinnurógi víða í kerfinu. Ég ætla að vitna í grein hjá Kjarnanum þar sem sagt er frá Katli Sigurjónssyni, sérfræðingi í orkumálum, sem haldið hefur úti Orkublogginu um langt skeið. Hann segir í nýrri færslu að bankastjóri í íslenska bankakerfinu hafi haft samband við sig og varað sig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn málflutningi hans. Fyrirtækið væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Bankastjórinn bætti við, með leyfi forseta: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig.“

Ketill hefur fjallað ötullega um kosti lagningar sæstrengs og það lága orkuverð sem erlend stóriðjufyrirtæki greiða fyrir orku á Íslandi. Hann hefur háð marga ritdeiluna við forsvarsmenn þeirra stóriðjufyrirtækja á Íslandi, meðal annars þá sem stýra málum hjá Norðuráli, sem rekur álver á Grundartanga og stefnt hefur að byggingu álvers í Helguvík. Í nýjustu færslunni sem Ketill sendi frá sér segir meðal annars að framkvæmdastjóri hjá Norðuráli hafi sent honum tölvupóst til að vinna fyrir sig verkefni í kjölfar þess að Ketill hafi gagnrýnt orkusöluna til álvera í fréttaskýringaþætti hjá RÚV. Þar segir:

„Það var athyglisvert að um mitt ár 2014 hafði samband við mig þaulreyndur framkvæmdastjóri hjá einu af stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum. Og sagði mér að forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta yfir samstarfi þeirra við mig.“

Ég vil bara undirstrika að það er þekkt í landinu að víða eru valdablokkir sem þagga niður í fólki, beita atvinnurógi og koma í veg fyrir að menn fái vinnu. Það er grafalvarlegt mál í lýðræðisþjóðfélagi hvað það er alltaf að ágerast að þessi stórfyrirtæki, hvort sem er í sjávarútvegi, áliðnaði eða annars staðar, í bönkum eða hjá stjórnmálaflokkum, (Forseti hringir.) séu að kúga almenning sem hefur lýðræðislegar skoðanir og vill koma þeim á framfæri við fólkið í landinu í gegnum fjölmiðla. Við skulum varast það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna