145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum yfir því að hæstv. forseti taki ekki á málinu með öðrum hætti en hér hefur komið fram. Hér setja menn upp einhvern helgisvip, hneykslunarsvip, tala um jafnrétti og annað því um líkt. Það kemur þessu máli bara ekkert við.

Hér er um stórmál að ræða sem er í fjölmiðlum, yfirlýsing frá forsætisráðuneytinu, yfirlýsing frá konu hæstv. forsætisráðherra. Ef við værum stödd annars staðar á Norðurlöndunum væri þetta mál sett á dagskrá og kallað væri eftir því að hæstv. forsætisráðherra gerði þinginu grein fyrir því hvað þarna er á ferðinni.

Við erum í upplýstu samfélagi og köllum eftir gegnsæi. Er það ekki eðlileg krafa okkar þingmanna að gera kröfu til þess að gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri á því milliliðalaust að gera þinginu grein fyrir þessari stöðu? Það er enginn hér að fella áfellisdóma fyrir fram. En við skulum bara heyra (Forseti hringir.) hvað forsætisráðherra vill segja um þessi mál og ræða það á þinginu og hætta þessum tepruskap.