145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

orð utanríkisráðherra um hagsmuni þingmanns.

[10:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vegna orða Gunnars Braga Sveinssonar, hæstv. utanríkisráðherra, í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins í morgun vill sú sem hér stendur gera grein fyrir hagsmunum sínum um kvótasölu. Hæstv. utanríkisráðherra fullyrti að sú sem hér stendur, og fjölskyldan, hefði haft hagsmuni af kvótasölu þegar hún barðist fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu á síðasta kjörtímabili. Í því samhengi vil ég koma á framfæri eftirfarandi:

Sú sem hér stendur og eiginmaður hennar hafa aldrei átt eða selt fiskveiðikvóta. Fósturfaðir minn var hættur smábátaútgerð sökum aldurs þegar ég tók sæti á Alþingi árið 2009 og faðir minn, sem var sjómaður og átti smábát, lést árið 1997. Engir beinir eða óbeinir einkahagsmunir lágu því undir þegar ég barðist fyrir breytingum á kvótakerfinu, aðeins hagsmunir almennings.

Með orðum sínum um annað leitast utanríkisráðherra við að afvegaleiða umræðuna um hagsmuni forsætisráðherra og eiginkonu hans og heldur fram helberum ósannindum (Forseti hringir.) um undirritaðan þingmann í því skyni að gjaldfella málflutning hans á þingi (Forseti hringir.) og í þjóðfélagsumræðunni og drepa á dreif gagnrýni á forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Ég geri kröfu á það að hæstv. utanríkisráðherra dragi þessi ósannindi og rangfærslur til baka. Mig dreymdi slor í nótt. Ég tel það vera að hæstv. utanríkisráðherra hafi dregið (Forseti hringir.) slor upp í umræðunni og þetta sé slormálflutningur (Forseti hringir.) sem á ekki að láta viðgangast. Ég óska eftir að hann biðjist afsökunar og dragi þetta til baka.