145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér efnahagsmálin. Í gær var aðalfundur Seðlabanka Íslands og mjög markverðir og afgerandi hlutir fyrir efnahagsmál þjóðarinnar ef við horfum til náinnar framtíðar og framvindu um þau mál. Vissulega eru bjartir tímar en vandasamt um leið.

Í ræðum hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóra kom fram að í kjölfar aflandskrónuútboðs yrði hægt að fara tiltölulega hratt í afnám hafta á innlenda aðila. Það er afar mikilvægt og því ber að fagna.

Margt annað athyglisvert kom fram á þeim fundi, virðulegi forseti. Seðlabankastjóri boðaði viðbrögð við óhóflegu innflæði fjármuna vegna vaxtamunarviðskipta, tæki og tól í formi bindiskyldu eða skatts sem ættu að verða virk hér þegar höftin verða afnumin og ekki vanþörf á og er mikilvægt verðstöðugleikatæki til að verjast verðbólgu og þjóðhagslegu ójafnvægi.

Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvort lægri vextir og vaxtastig mundu ekki samhliða vinna að sama markmiði og gagnast þá heimilum og atvinnulífi. Svar Seðlabankans er nokkuð augljóst: Það mundi örva hér eftirspurn og auka einkaneyslu og þenslu.

Ég trúi því ekki með þetta innstreymi í formi vaxtamunarviðskipta sem kostar mikið og getur ógnað gengi útflutningsatvinnuvega og fjármálastöðugleika að við getum ekki náð sömu markmiðum með lægra vaxtastigi í bland við þau fjárstreymistæki sem ég tek fram að eru mikilvæg viðbót í vopnabúrið og gefa okkur aukin færi á að ná jafnvægi og viðhalda þeim verðstöðugleika sem hefur verið.

Verkefnið fram undan er (Forseti hringir.) öguð hagstjórn peninga- og ríkisfjármála.


Efnisorð er vísa í ræðuna