145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um menningarminjar og fleiri lögum. Tilefni lagasetningarinnar er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí 2013 kemur fram sú fyrirætlun að auka skilvirkni stjórnsýslunnar, m.a. með breytingum á skipulagi, sameiningu stofnana og tilflutningi á milli sviða í samræmi við áherslur og forgangsröðun. Er þetta stefnumið tilefni og grundvöllur þess að hafist var handa við að endurskilgreina stofnanakerfi málaflokksins á síðasta ári.

Á kjörtímabilinu hefur áhersla verið lögð á að styrkja málaflokkinn með ýmsum hætti. Þannig hefur aukið fé verið veitt til Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sem og húsafriðunar- og fornminjasjóðs. Þá hafa lög um menningarminjar verið tekin til endurskoðunar í víðtæku samráði við hagsmunaaðila með það að markmiði að styrkja löggjöfina og sníða af þá hnökra sem á henni eru, svo sem varðandi veikt fyrirkomulag leyfisveitinga vegna fornleifarannsókna, ófullnægjandi réttarvernd friðaðra húsa og mannvirkja, og óskýrt hlutverk ráðgjafarnefnda.

Afrakstur þeirrar endurskoðunar, sem hófst síðastliðið sumar, er meðal annars að finna í þessu frumvarpi. Í ljósi þessa og með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er eðlilegt að einnig sé litið til þeirrar stofnanauppbyggingar sem er í málaflokknum og kannað hvort þörf sé á að endurskipuleggja.

Í þeirri skipulagningu hefur verið litið til fjögurra leiða:

Í fyrsta lagi óbreytt skipan en með efldu samstarfi.

Í öðru lagi formlegra samstarf, t.d. á grunni samstarfssamnings, sameiginlegrar framtíðarsýnar og skýrari verkaskiptingar.

Í þriðja lagi samrekstur stoðþjónustu í heild.

Í fjórða lagi er unnt að vinna að sameiningu stofnananna.

Færa má rök fyrir því að fagleg og fjárhagsleg áhrif hljóti að verða mest við sameiningu og að samstarf stofnananna hafi takmörkuð fagleg áhrif og engin áhrif til lækkunar á rekstrarútgjöldum. Með vísan til þessa eru slíkir kostir ekki fýsilegir og sameining stofnana sú leið sem er fljótvirkust til að koma á laggirnar öflugri starfseiningu sem verði í senn rekstrarlega og faglega sterkari en smærri starfseiningar eins og nánar er gerð grein fyrir í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Samhliða sameiningu stofnana er lagt til í frumvarpinu að tiltekin afmörkuð verkefni verði flutt frá Minjastofnun Íslands til forsætisráðuneytisins. Annars vegar er um að ræða ráðgjöf við sveitarfélög um mótun tillagna um verndarsvæði í byggð í samræmi við ákvæði laga um verndarsvæði í byggð. Hins vegar er um að ræða gerð tillagna um að hús eða mannvirki verði friðlýst samkvæmt lögum um menningarminjar. Tilefni þessarar tillögu er að ákvörðunarvald er í báðum tilvikum á hendi ráðherra og eingöngu lagður til flutningur á ráðgjöf og mótun þeirra tillagna sem umræddar ákvarðanir byggjast á.

Ég ítreka þetta, virðulegur forseti: Ákvörðun er í báðum tilvikum á hendi ráðherra og hér er því um það að ræða að verið er að flytja ráðgjöf og mótun þeirra tillagna sem hvort eð er eru hjá ráðherra. Rökin fyrir þessum tilflutningi eru að nauðsynlegt er að skapa svigrúm til aukinnar stefnumótunar í málaflokknum af hálfu ráðherra, einkum hvað varðar friðlýsingu húsa og mannvirkja. En stefnumótun á þessu sviði hefur hingað til verið brotakennd og því mikilvægt að úr verði bætt. Fellur það vel að almennu stefnumótunarstarfi ráðuneyta að fella umrædd verkefni undir valdsvið ráðuneytisins.

Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að Þjóðminjastofnun geri tillögu um heildarstefnu og langtímaáætlun um vernd og varðveislu menningarminja, þar á meðal um friðlýsingu þeirra. Mun því forsætisráðuneytið og hin nýja stofnun móta slíka heildarstefnu.

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins mælir fyrir um að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands verði sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun, þó þannig að Þjóðminjasafnið verði áfram til sem höfuðsafn og að um það gildi sérlög, enda þótt það falli undir hina nýju stofnun.

Fyrstu lög um þjóðminjavörslu voru samþykkt árið 1907 og í framhaldinu fékk safnið heitið Þjóðminjasafn Íslands. Tilgangur þessa fyrirkomulags er að tryggja að Þjóðminjasafn Íslands verði áfram til sem slíkt, enda hefur það skipað sérstakan sess hjá þjóðinni í yfir eitt hundrað ár.

Þá er jafnframt lagt til að forstöðumaður stofnunarinnar nefnist þjóðminjavörður, en safnstjóri sé yfir safninu. Enda heitið samofið aldarlangri sögu Þjóðminjasafns Íslands og hefur embætti þjóðminjavarðar verið í forustu fyrir safnastarf og þjóðminjavörslu á Íslandi í yfir hundrað ár.

Ég vil þó sérstaklega geta þess, virðulegur forseti, að ég er mjög opinn fyrir því að skoða þann möguleika að hin sameinaða stofnun heiti áfram Þjóðminjasafn Íslands. Það er viðurhlutamikið í þessu frumvarpi, sem ég mæli hér fyrir, um stofnun þessarar nýju stofnunar, að nafnið með þessa miklu sögu fái að lifa. Gert er ráð fyrir því að gera það hér með því að Þjóðminjasafnið, eins og ég gat um áðan, sé annar hluti þessarar stofnunar. En ég ítreka að ég er mjög opinn fyrir því að skoða þann möguleika að stofnunin í heild heiti Þjóðminjasafn Íslands og beini því þar af leiðandi til allsherjar- og menntamálanefndar, sem fær frumvarpið til meðferðar að lokinni þessari umræðu, að taka nafngiftina sérstaklega til skoðunar.

Frumvarpið mælir jafnframt fyrir um ýmsar breytingar á lögum um menningarminjar sem lúta að því að styrkja umgjörð málaflokksins. Varða breytingarnar einkum fyrirkomulag leyfisveitinga til fornleifarannsókna, aldursfriðun forngripa auk húsa og mannvirkja, hlutverk ráðgjafarnefnda, friðuð hús og mannvirki og hlutverk húsafriðunarsjóðs.

Nánar tiltekið eru lagðar til eftirfarandi breytingar á lögum um menningarminjar:

Í stað þess að forngripir teljist lausamunir sem eru 100 ára og eldri er lagt til að miðað sé við muni frá árinu 1900 eða fyrr.

Með sama hætti er lagt til að í stað þess að miða við 100 ára reglu hvað varðar aldursfriðun húsa og mannvirkja verði miðað við ártalið 1918. Þá er jafnframt lagt til að leita þurfi álits stofnunarinnar ef um er að ræða hús eða mannvirki sem ekki nýtur friðunar en er byggt 1930 eða fyrr í stað 1925, eins og segir í núgildandi lögum.

Skýrar er kveðið á um hlutverk fornminja- og húsafriðunarnefndar sem ráðgjafarnefnda gagnvart stofnuninni.

Lagt er til að skýrt sé kveðið á um að afla þurfi leyfis vegna endurbóta og viðhalds á friðlýstum húsum og mannvirkjum og réttarvernd friðaðra húsa og mannvirkja styrkt.

Skýrar er kveðið á um hvaða skilyrði heimilt sé að setja fyrir veitingu leyfa til fornleifarannsókna og mælt fyrir um menntunarkröfur til þeirra sem stjórna leyfisskyldum fornleifarannsóknum.

Jafnframt er lagt er til að með skýrum hætti sé kveðið á um í lögum að óheimilt sé að veita ný rannsóknarleyfi fyrr en gripum, sýnum og rannsóknargögnum fyrri rannsókna hafi verið skilað.

Loks er húsafriðunarsjóði gert kleift að veita fé til uppbyggingar og viðhalds byggðar innan verndarsvæða óháð því hvort um er að ræða friðuð og friðlýst hús eða ekki.

Hvað viðkemur fjárhagslegum ávinningi af sameiningu stofnananna tveggja er miðað við að með henni verði unnt að lækka rekstrargjöld um 4,1% eða 47 millj. kr. á ársgrundvelli. Þetta skilst mér að sé mjög varlega áætlað svo að nokkrar líkur eru á að ávinningurinn verði töluvert meiri. Stafar það af því að með beitingunni skapast tækifæri á að endurskipuleggja verkaskiptingu, ferla og skipulag verkefna. Þrátt fyrir þetta má gera ráð fyrir að kostnaður við sameininguna geti numið um 35–40 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að breytingaferlið taki eitt ár og á því tímabili þarf að gera ráð fyrir tímabundnum fjárveitingum vegna breytinganna þar sem ekki er gert ráð fyrir því að ávinningur sé að öllu leyti kominn fram á því tímabili.

Þá skal nefnt að ekki er gert ráð fyrir að til uppsagna starfsmanna stofnananna tveggja komi. Ég ítreka þetta, virðulegur forseti. Hér er ekki gert ráð fyrir neinum uppsögnum starfsmanna vegna þessarar sameiningar og lagt til að í frumvarpinu verði kveðið á um að öllum starfsmönnum verði boðið starf hjá hinni nýju stofnun.

Loks er ástæða til að geta þess að stofnuninni er ætlað að vera vísinda- og þjónustustofnun á sviði þjóðminjavörslu sem sinni varðveislu og skráningu menningar og þjóðminja, rannsóknum og miðlun þekkingar í þágu almannahagsmuna. Stofnuninni er ætlað að vera í samstarfi við háskóla á fræðasviðinu og standa fyrir og stuðla að öflugu vísinda- og rannsóknarstarfi á lögbundnu fagsviði stofnunarinnar.

Mikilvægt er að hin nýja stofnun eða safnið sem undir hana heyrir sé ekki þátttakandi í leyfisskyldum fornleifarannsóknum á samkeppnismarkaði, hvorki með beinum né óbeinum hætti. Stofnuninni er falið að veita slíkum rannsóknum leyfi og hafa eftirlit með þeim og mikilvægt að hún sé ekki sett í þá stöðu að veita sjálfri sér eða aðilum sem hún tengist leyfi til rannsókna á samkeppnismarkaði og hafa eftirlit með slíkri leyfisveitingu.

Þá er mikilvægt að stofnunin tryggi að gætt sé sjónarmiða samkeppnislaga og að hún á engan hátt keppi við aðila sem starfa við fornleifarannsóknir á einkamarkaði. Jafnframt er mikilvægt að neyðar- og skyndirannsóknir sem og vettvangskannanir stofnunarinnar vegna mats á umfangi og eðli minja séu ekki svo umfangsmiklar að telja megi stofnunina sinna fornleifarannsóknum sem með réttu tilheyri einkaaðilum á samkeppnismarkaði. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að safnið, sem hluti af Þjóðminjastofnun, ræki það rannsóknarhlutverk sem því er falið í lögum um Þjóðminjasafn Íslands, og sé þannig öflugt vísinda- og þjónustusafn á sviði þjóðminjavörslu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.