145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það er mjög sérstakt og eiginlega ekki til eftirbreytni að áhugasvið ráðherra ráði algjörlega för.

Við sáum það strax í upphafi kjörtímabilsins þegar hæstv. forsætisráðherra tók upp á því upp á sitt einsdæmi að útdeila styrkjum með SMS-skeytum og gomsaði undir sig ákveðna málaflokka sem áður höfðu verið í menntamálaráðuneytinu.

Maður veltir fyrir sér: Ef mál hefðu þróast þannig að sá ráðherra sem um ræðir hefði farið í menntamálaráðuneytið, hefði ekki orðið forsætisráðherra, hefðu málaflokkarnir þá aldrei verið færðir þaðan?

Eftir hvaða plani er verið að vinna hérna; áhugasviði forsætisráðherra eða einhverri sýn sem við höfum mótað hér til lengri tíma um það hvar málaflokkum er best fyrir komið?

Ég hefði haldið að forsætisráðuneytið og hæstv. forsætisráðherra ættu fyrst og fremst að vera samhæfingarráðuneyti og í rauninni er hæstv. forsætisráðherra verkstjóri. Hann ætti að einbeita sér að því og kannski koma fleiri góðum málum í gegnum ríkisstjórn sína.

Mér finnst þetta í hæsta máta vera óeðlilegt. Mér finnst eins og að duttlungar einhverra manna sem sitja í embættum í ákveðinn tíma ráði hér för. Mér finnst það ekki ásættanlegt og það eru mikil vonbrigði hvað þetta frumvarp er að mörgu leyti furðulegt og eykur á ráðherraræðið, t.d. þær lagagreinar þar sem verið er að leggja til orðið „Minjastofnun“ sé tekið út fyrir orðið „ráðherra“.

Ég skil það ekki. Er hv. þingmaður sammála mér í þessum pælingum?