145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi samningu þessa frumvarps er vitnað til stýrihóps sem fundaði ekki nema þrisvar sinnum samkvæmt greinargerð. Mér sýnist frumvarpið aðallega byggja á þeirri fýsileikagreiningu sem ég hef vitnað til, sem er vafalaust unnin af ágætu fólki en ekki að mér vitandi sérfræðingum á sviði minjavörslu. Það sem ég hef áhyggjur af er að fagþekking hafi ekki verið ráðandi við smíði þessa frumvarps, það sést við lesturinn á greinargerðinni. Ég hef því miður ekki haft eins mikinn tíma til að lúslesa málið og ég hefði viljað en ég velti því fyrir mér hvað ræður þeirri stjórnsýslu sem hér er lögð til, að Þjóðminjastofnun geri tillögur til ráðherra um friðlýsingu fornleifa, minningamarka, skipa og báta — skipa og báta — en allt ferli friðlýsingar húsa og mannvirkja sem og samstæðu húsa verði á hendi ráðherra.

Herra forseti. Eigum við ekki að láta ráðherrann gera tillögur um friðlýsingu báta og skipa líka? Eða hefur hæstv. ráðherra ekki áhuga á bátum og skipum? Og hvað ef við fáum forsætisráðherra sem hefur mjög mikinn áhuga á bátum og skipum en ekki á húsum? Ætlum við þá að færa það til? Ætlum við að færa undirbúning að friðlýsingu húsa yfir til Minjastofnunar en skella bátunum yfir í ráðuneytið?

Herra forseti. Það sé hver maður að það er ekki heil brú í þessari hugsun. Hv. þingmaður nefnir fagþekkinguna og hvernig við nýtum hana og mér sýnist hún ekki hafa verið nýtt. Mér sýnist að þarna spili inn í einfaldari möntrur um færri stofnanir, það sé einhvern veginn betra. Ég er alveg hætt að skilja þetta, mér finnst það óttaleg nauðhyggja þegar við ræðum svona að þetta spari peninga og að stjórnsýsla húsafriðunar sé í raun og veru komin í uppnám.