145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hlýt að byrja á því að undrast það háttalag að ráðherra sé ekki viðstaddur þessa umræðu. Það má vel vera að hann sé í þingflokksherbergi eða annars staðar á svæðinu, en ekki er hann hér, ekki er hann sjáanlegur. Það er hárrétt, sem hér hefur verið sagt, að við eigum ekki að sætta okkur við þessa framkomu hæstv. forsætisráðherra við okkur þingmenn og störf okkar hér. Hann sýnir okkur beinlínis lítilsvirðingu — það verður bara að orða hlutina eins og þeir eru, virðulegi forseti.

Það sem við segjum hér skiptir okkur máli, okkur finnst það almennt og yfirleitt skipta máli það sem við höfum hér fram að færa. Við erum ekki að þessu að gamni okkar til að ergja hæstv. forsætisráðherra svo að hann þurfi þá að fela sig í húsinu. Við erum hér til að tala við hann um það frumvarp sem hann leggur fram. Þetta er eiginlega ekki líðandi, virðulegi forseti. Ég hlýt að segja það.

Til að snúa mér að umræðuefni dagsins, sem er um breytingu á lögum um minjastofnanir, þá tel ég að rekja megi frumvarpið til sumarbústaðarferðar árið 2013 þegar menn sömdu um það ríkisstjórnarsamstarf sem hér er. Það er því ekki forsætisráðherrann einn sem ber ábyrgð á frumvarpinu, það er öll ríkisstjórnin. Ég hætti ekki að furða mig á því, virðulegi forseti, að það skuli hafa verið látið eftir Framsóknarflokknum og forsætisráðherra, í þeim samningaviðræðum sem fóru fram um þessa ríkisstjórn, að færa málefni sem vega þungt í menningu okkar úr menntamálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið eftir duttlungum forsætisráðherra. Og að hugsa sér að það geti verið samningsatriði við ríkisstjórnarmyndun að hægt sé að flytja áhugamál ráðherra, í þessu tilviki forsætisráðherra, yfir í forsætisráðuneytið. Ég held að það mundi enginn trúa manni ef maður segði frá þessu, fólk trúir manni ekki ef maður segir þetta, þ.e. fólk sem ekki þekkir til staðhátta hér á landi. Þetta er með endemum og sýnir valdhroka, held ég verði að segja, af verstu sort; að láta sér detta í hug að eðlilegt sé að færa mál á milli ráðuneyta. Hvað með allt fólkið sem vinnur að þessum hlutum? Jú, jú, bara skutla því líka milli ráðuneyta. Síðan skilst mér að margir átti sig ekkert orðið á samspilinu á milli hinna ýmsu þátta í menningargeiranum út af þessu öllu. Þetta er okkur öllum til vansa.

Öll verða þessi málefni aftur flutt til menntamálaráðuneytisins þegar ríkisstjórnin lætur af störfum og ég vona að þeir sem þá taka við í Stjórnarráðinu átti sig á því að heimild til að flytja málefni á milli ráðuneyta með forsetaúrskurði er ekki ætluð til þess að fara eftir duttlungum einstakra manna eða kvenna, heldur einungis ef þannig stendur á að leysa þarf einhver mál og ef heppilegt er í einhvern tíma að færa mál saman.

Vissulega er það þannig í Stjórnarráðinu, virðulegi forseti, að það er aðskilnaður á milli ráðherra og ráðuneyta og stundum virðast menn eiga erfitt með að tala saman. Þetta kom til dæmis í ljós hvað það varðar hve langan tíma tók að koma verkefnum sem höfðu heyrt undir Varnarmálastofnun fyrir og breyta þeim. Það er ákveðinn aðskilnaður í Stjórnarráðinu, þannig að það getur vel verið að heppilegt sé að geta hreyft mál á milli ráðuneyta af faglegum ástæðum. En að gera slíkt eftir duttlungum einstakra manna, það er ekkert annað en hneyksli.

Síðan liggur þetta frumvarp fyrir þar sem allt í einu birtist aftur duttlungafull árátta til að breyta stofnanakerfinu sem hér hefur verið sett upp. Það kom fram í ræðum hér fyrr í dag, og sérstaklega fór hv. þm. Katrín Jakobsdóttir vel yfir það, að greinargerðin — þegar ég var að lesa þessa greinargerð yfir þá hugsaði ég: Ég held ég hafi aldrei fyrr lesið greinargerð með lagafrumvarpi þar sem ég hef farið að efast um það sem þar stendur. Ég hugsaði með mér: Get ég ekki treyst þessari greinargerð? Það er ekki út af því að eitthvað í þessari greinargerð sé ekki sannleikanum samkvæmt, heldur vegna þess að hún er hálfsannleikur. Það kemur best fram í því hvernig skautað er yfir, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir orðaði það, þær breytingar sem gerðar voru á lögunum árið 2011 og 2013 og látið eins og nú sé verið að lagfæra lög sem voru sett 2001. En í raun er verið að færa löggjöfina aftur til ársins 2000 og afnema umbætur á þeim lögum sem gerðar voru árið 2013. Í stað þess að halda áfram á þeirri braut að aðskilja enn frekar stjórnsýslu og rannsóknastarfsemi er verið að sameina það aftur.

Ef menn vilja sameina frekar í þessum geira mætti hugsa sér, þ.e. ef þjóðmenningin hefði ekki verið flutt yfir í forsætisráðuneytið, að sameina stjórnsýslu hinna ýmsu menningarmála meira en er í dag. Hjá Rannís er þegar búið að sameina umsjón með ákveðnum sjóðum hjá Rannís á hinum ýmsu menningarsviðum. Það mætti kannski gera það enn frekar, að sameina stjórnsýsluna. Hvað á stjórnsýslan að gera? Stjórnsýslan á að fylgjast með verkferlum, að hlutirnir séu rétt gerðir og þar fram eftir götunum. Þarna á að nota sömu verkferla varðandi hina breytilegu menningarþætti eins og bókmenntasjóð og myndlistasjóð eða hvað sjóðirnir heita. Það má nota sömu stjórnsýsluaðferðir þar en skilja faglega hlutann eftir í faglegu stofnununum. Það er ekki gert í frumvarpinu.

Í greinargerðinni kemur síðan fram að fyrirkomulaginu í Noregi sé fylgt. Það er ekki rétt, virðulegi forseti. Í grein eftir Þóru Pétursdóttur, sem er doktor í fornleifafræði og vinnur í Noregi, segir:

„Skýr stefnumótun í minjavernd og rannsóknum eins og lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi er mikilvæg. Í greinargerð með frumvarpinu kemur hins vegar fram að fyrirmynd þess sé m.a. sótt til Noregs.“

Hún heldur áfram:

„Það verður að teljast undarlegt í ljósi þess að norska kerfið byggir einmitt á aðgreiningu stjórnsýslu og rannsókna — en þeim mun skýrari og öflugri samvinnu á milli sviðanna.“

Það er ekki einu sinni rétt, virðulegi forseti, sem sagt er að fyrirkomulagið sé svona í Noregi. Maður er mjög undrandi á því hvernig þetta mál er sett fram.

Ýmsir hafa nefnt 11. gr. í frumvarpinu, sem er lýsandi fyrir það að verið er að smíða lög í kringum áhugamál ráðherrans. Í 11. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Þjóðminjastofnun gerir tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám hennar hvað varðar fornleifar, skip og báta. Ráðherra tekur ákvörðun um friðlýsingu …“

Síðan segir:

„Ráðherra tekur ákvörðun um friðlýsingu og afnám hennar hvað varðar hús og mannvirki sem og samstæðu húsa. Hann getur falið Þjóðminjastofnun að vinna tillögu …“

— En hann ætlar að gera þetta sjálfur.

Ég ræddi þetta við hæstv. ráðherra í andsvari hér í dag. Þá varð hann að vera í salnum því að hann hafði haldið ræðu og varð að svara andsvörum við sinni eigin ræðu. Þá sagði hann að það væri nú kannski sniðugt að taka bátana og skipin líka inn í ráðuneytið.

Virðulegi forseti. Þetta sýnir virðingarleysi ráðherrans gagnvart verkefninu; hann lítur á það eins og það sé hans einkaverkefni og komi okkur hinum lítið við. Það er alveg ljóst að mikil vinna liggur fyrir allsherjar- og menntamálanefnd um að vinna úr frumvarpinu. Það kemur fram alls staðar að það samráð sem talað er um — það getur vel verið að það sé listað upp í einhverjar stofnanir sem samráð hefur verið haft við, en í öllum þeim bréfum sem berast, í öllum þeim greinum sem skrifaðar eru og í þeim samtölum sem maður á við fólk sem þekkir til í þessum geira kemur í ljós að enginn sem ég hef heyrt í finnur fyrir því að haft hafi verið samráð við hann eða hana. Enda mælir enginn af þeim sem til þekkja eða koma að málum í þessum geira frumvarpinu bót. Þannig er það bara, virðulegur forseti. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna, kannski ég haldi mína seinni ræðu þegar málið kemst aftur á dagskrá eftir páska. Ég hef lokið máli mínu.