145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir hrunið 2008 var mikið verk fyrir höndum og ný ríkisstjórn komst til valda. Horft var til þeirrar ríkisstjórnar alls staðar frá og horft til þess að hún ynni okkur út úr hruninu, kæmi á lýðræðisumbótum, breytti regluverki fyrir fjármálakerfið og setti siðareglur fyrir kjörna fulltrúa landsins.

Tæpum átta árum síðar hefur það snúist algerlega í hring. Nú eru menn komnir á sama stað og þeir voru á í aðdraganda hrunsins og láta eins og ekkert sé. Skömmin er þessarar ríkisstjórnar, að hafa ekki notað þann tíma sem hún hefur verið við völd til að vinna áfram að lýðræðisumbótum og vinna að því að siðvæða þjóðfélagið og sérstaklega stjórnmálamenn. (Forseti hringir.) Nú ætla þessi spillingaröfl, samtryggingaröfl Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, (Forseti hringir.) að krækja höndum saman þegar völd og græðgi eru annars vegar og ætla ekki að hvika. (Forseti hringir.) Ég segi: Þeir þingmenn í stjórnarliðinu sem ætla að styðja forsætisráðherra (Forseti hringir.) áfram til valda, þeirra er skömmin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)