145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

hagsmunaskráning þingmanna og siðareglur.

[16:24]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra og ég deilum því að hafa komið inn í pólitík frekar óvænt í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og starfað undir merki siðbótar í íslenskri pólitík. Ólíkt upplifi ég skilning okkar á siðbót eða siðum í íslenskri pólitík.

Mig langar til þess að beina því til hæstv. forsætisráðherra hver upplifun hans sé af umgengni hans við hagsmunaskráningu þingmanna, við siðareglur ráðherra, sem hann tjáði okkur úr þessum stóli fyrir rúmu ári síðan að væru í gildi, við framlagningu hagsmuna, við vinnu í sambandi við afnám hafta.

Finnst hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að þessar reglur gildi bara þegar honum þyki eiga við?