145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki oft sem ég er sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, en ég hef sannfærst um það undir þessari umræðu og eftir atburðarás síðustu daga að hún hefur algjörlega rétt fyrir sér þegar hún segir að rétt sé að ganga tafarlaust til þingkosninga. Það hefur ríkt pólitísk og stjórnarfarsleg kreppa af völdum ríkisstjórnarinnar síðustu daga. Við höfum varla vitað hvort það sé forsætisráðherra í landinu eða þá hver það er. Hér á hinu háa Alþingi hefur ekki verið hægt að halda fundi svo dögum skiptir fyrr en núna og ekki hefur fengist á dagskrá að ræða vantraust á ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því svo áðan að sá trúnaðarbrestur, sem verðandi hæstv. forsætisráðherra kallaði svo, væri í reynd eitthvað sem mætti líkja við eldgos og hamfarir. Ég held að það sé rétt. Við þær aðstæður er ekki hægt að splæsa saman friðinn nema leyfa rödd þjóðarinnar að hljóma og þess vegna tel ég einboðið að til þess að koma á friði, til þess að valdþættirnir standi undir friðarskyldu sinni, eigi að láta þjóðina ráða (Forseti hringir.) úrslitunum um það í kosningum sem verða haldnar sem fyrst um það hvort þessi ríkisstjórn heldur áfram (Forseti hringir.) eða hvort henni verður varpað á hauga sögunnar.