145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við búum við mikla óvissu. Þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að hér þurfi að vera stöðugleiki þá hefur mikill óstöðugleiki verið hér á landi í boði þeirra.

Ég held að ástæða þess að ráðamenn þjóðarinnar vilja bíða með kosningar sé sú að þeir vilji bíða eftir að reiði almennings sefist. Það er eina ástæðan. Þeir þurfa ekki að vera í forustu fyrir því að halda áfram með þau verk sem hafa verið unnin í þverpólitísku samstarfi og kannski þeir einu sem hafa hægt á þeim verkefnum eru þeir sjálfir vegna þess að það er ósætti á milli ríkisstjórnarflokkanna.

Mér finnst mjög mikilvægt að við lærum af hruninu. Eitt af því sem mikið var talað um var að við ættum að hætta að taka lögin eftir bókstafnum og ættum að reyna að skilja hver andi laganna væri. Það að segja að eitthvað sé löglegt en siðlaust er ekki í boði í dag og það hefur almenningur sýnt með því að koma hér fyrir utan þinghúsið í (Forseti hringir.) miklu meiri mæli en nokkurn tíma hefur sést áður á Íslandi. Vil ég þakka almenningi fyrir (Forseti hringir.) að sýna þau borgaralegu réttindi í verki sem hann hefur til þess að mótmæla óþolandi ástandi.