145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þegar friður rofnar í samfélaginu með jafn afgerandi hætti og núna verða valdþættirnir Alþingi og ríkisstjórn að leggja sig fram um að skapa aftur frið og sátt. Hæstv. verðandi forsætisráðherra er grandvar maður sem áreiðanlega vill eins og flestir og allir forsætisráðherrar gera sitt besta, en hann verður að gera sér grein fyrir því að höfuðskylda hans núna er að reyna að finna leiðir til þess að sætta samfélagið. Þá rifja ég upp að hér risu miklir úfar sumarið 2004. Þá lét þáverandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gera greinargerð um friðarskylduna í samfélaginu. Í kjölfarið dró sú ríkisstjórn fjölmiðlalögin til baka og stjórnarandstaðan lét nótt sem nam og hætti við að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Nú verður hæstv. verðandi forsætisráðherra að velta fyrir sér: Hvað er best til þess að lægja öldurnar? Er það að búa til ríkisstjórn sem nýtur minnsta fylgis sem nokkur ríkisstjórn hefur notið í upphafi ferilsins? Er það að mynda ríkisstjórn sem nýtur samtals 28% fylgis? Vitaskuld ekki. Það besta sem hæstv. verðandi (Forseti hringir.) forsætisráðherra getur gert er að fallast á það að nú á fólkið að fá að tala og setja fram tillögu (Forseti hringir.) um kosningar. Við munum sjá til þess að áður en gengið verður til þeirra verður gengið frá því sem nauðsynlegast er varðandi (Forseti hringir.) uppgjör slitabúanna.