145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn virðist ætla að fella tillögu um kosningar, þótt maður hafi heyrt úr herbúðum þeirra að þar séu menn fylgjandi þeim og óhræddir við þær. Þá spyr ég: Hvers vegna eru menn ekki búnir að gefa út tímasetningu á kosningum í haust? Hæstv. fjármálaráðherra hefur komist næst því með því að segja í tröppunum á miðvikudagskvöldið að klippt verði eitt löggjafarþing af kjörtímabilinu. Ef ég skildi hann rétt þá þýðir það væntanlega í september, en síðan hafa aðrir dregið í land með það. Þetta þarf að skýra ef menn meina það sem þeir segja, vegna þess að önnur af breytingunum sem menn lofuðu í tröppunum voru kosningar fyrr. Við hvað eruð þið hrædd? (Gripið fram í: Kjósendur.) Kjósendur?

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu. Ég tel að við eigum að verða við kröfunni um kosningar þar sem við sækjum öll endurnýjað umboð, allir flokkar sem hér eru, og tökum samtal við þjóðina um leiðina áfram eftir það gríðarlega trúnaðarbrot sem hefur átt sér stað.