145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er eins og upp séu komnar svolítið kunnuglegar íslenskar kringumstæður þegar einstaklingar fara á mikið skrall og muna svo ekki alveg daginn eftir hvað þeir sögðu. Það gekk hérna mikið á í síðustu viku og mér finnst eins og ríkisstjórnarflokkarnir séu að vakna upp svolítið þunnir og séu að rifja upp hvað þeir sögðu. Bíddu, töluðum við um einhver mikilvæg mál? Hvað meinti ég með því? Sagði ég virkilega að það ætti að kjósa?

Já, þeir hlutir voru sagðir hérna í miðjum klíðum á hlaupum í síðustu viku og þeir voru mikilvægir. Þeir voru mjög skiljanlegir og rökréttir, að segja inn í þetta allt saman að það þyrfti að kjósa. Vissulega, já, það þarf örugglega að klára einhver mál áður en kosið verður. En er það virkilega svo að á hlaupunum í síðustu viku vissu ráðherrarnir ekkert hvað þeir voru að tala um? Nú er talað um að byggja upp traust en menn geta ekki einu sinni svarað því þá hvenær þessi kjördagur verður. Hvenær verður kosið? Hvaða mál voru menn að tala um? Hvaða mál eru það sem þarf að klára í hvelli fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Þetta eru augljósar spurningar.