145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar sem felur í sér nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu. Því ber ekki að leyna að til að umræðan geti verið markviss vantar inn í þingið grundvallarplagg. Ríkisfjármálaáætlun vantar sem hæstv. fjármálaráðherra átti að vera búinn að leggja fram fyrir tæplega hálfum mánuði. Þá mundum við vita hvort ríkisstjórnin væri að svara ákalli hátt í 90 þús. manns um aukið fé í heilbrigðiskerfið og hvort hluti af því eigi að fara í það að draga úr greiðsluþátttöku landsmanna. Hæstv. fjármálaráðherra fór í langt og gott páskafrí, kom svo heim og þurfti að horfast í augu við sundurtætta ríkisstjórn og erfið persónuleg málefni. Nú er hann erlendis að tala á fundi einhverra aðila um endurreisn íslenska efnahagskerfisins. Á meðan bíðum við hin eftir ríkisfjármálaáætlun sem hann átti að vera búinn að leggja fram samkvæmt lögum. Mjög óheppilegt er að við séum að ræða svo mikilvæga kerfisbreytingu án þess að vita hvernig fjárhagur fyrir málaflokkinn lítur út á næstu árum. Þetta er því svolítið skot í myrkri. Ég geng þá bara út frá því að ekki eigi að koma viðbótarfjármagn til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Það eru þær forsendur sem mér hafa verið veittar, bæði af frumvarpinu sem og verkleysi hæstv. fjármálaráðherra.

Fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra að samstaða sé um að breyta greiðsluþátttökukerfinu. Það er hárrétt. ASÍ hefur nýlega skilað skýrslu um greiðsluþátttökukerfin og greiðslukerfin í heilbrigðisþjónustu. Ég hugsa að það sé besta yfirlit sem til er almennt um þennan þátt íslenskrar heilbrigðisþjónustu og merkilegt að það hafi ekki komið frá ráðuneytinu heldur Alþýðusambandi Íslands. En sama hvaðan gott kemur. Það gagn lýsir vel við hvers konar kerfi er að eiga. Í þessu kerfi er verið að taka læknisþjónustuna, rannsóknir og þjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun og sjúkraþjálfun, inn undir eitt greiðslukerfi en enn munu standa utan þess sálfræðiþjónusta, tannlæknar fyrir aðra en börn, aldraða og öryrkja, hjálpartæki og ferðakostnaður. Nú ber þess að geta að tannlæknaþjónusta fyrir aldraða og öryrkja, greiðsluþátttakan þar hefur alls ekki fylgt verðlagsþróun og þróun gjaldskráa tannlækna, og þar af leiðandi hefur sá kostnaður aukist gríðarlega fyrir hóp lífeyrisþega. Með þessu nýja kerfi er lagt líka til að þakið verði 95.200 kr., hið almenna gjald, en aldraðir og öryrkjar, börn sem og unglingar 18–21 árs verði með þak sem nemur 63.500 kr. á heilbrigðisþjónustu árlega.

Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni í dag er ekki verið að taka lyfjagreiðslukerfið og sameina það. Þar eru þökin 62 þús. kr. annars vegar og 41 þús. kr. hins vegar sem þýðir að þak fyrir fólk í almennri gjaldskrá, ef það nýtir eða þarf að nota mikið af lyfjum og heilbrigðisþjónustu, verður 157 þús. kr. en fyrir lífeyrisþega og börn 104.500 kr. Þetta er ansi mikill kostnaður þó að sannarlega séu í samfélaginu hópar fólks sem greiða mun meira í dag og þessi breyting er gríðarlega mikilvæg fyrir þann hóp. En það er ekki arðurinn af auðlindunum sem á að auðvelda þeim að greiða heilbrigðiskostnaðinn, það eru aðrir sjúklingar. Það eru 85 þús. manns í hópi almennra sjúklinga sem hækka um 31% í kostnaði fyrir heilbrigðisþjónustu árlega. Það sem verra er, það eru 37.400 lífeyrisþegar sem fá aukinn kostnað um 73% árlega. Með því að líta á þessar tölur sjáum við að þetta er óframkvæmanlegt nema með viðbótarfjármagni. Enda er það þannig að greiðsluþátttaka einstaklinga hefur aukist á síðustu þremur áratugum. Hún hefur tvöfaldast á síðustu þremur áratugum og er nú um 20% af öllum heilbrigðisútgjöldum og útgjöld einstaklinganna hafa vaxið mun meira hlutfallslega en heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu. Útgjaldaaukningin í málaflokknum hefur því verið í auknum mæli á kostnað sjúklinganna sjálfra. Þannig á það náttúrlega ekki að vera því að heilbrigðiskerfið á að fjármagna að öllu leyti af landsmönnum öllum, að það séu ekki sjúklingar sem standi undir aukinni byrði kostnaðar í kerfinu.

Ég verð að segja að mér finnst ég eiginlega varla vita hvernig ég á að tala um þetta því að þetta eru svo erfiðar staðreyndir. Skoðum þakið aðeins, ef við tökum almennu sjúklingana með 157 þús. kr. Í þeim hópi er fólk, það er oftast launafólk eða gæti verið atvinnulaust líka, á aldrinum 21–67 ára sem er ekki örorkulífeyrisþegar en getur orðið fyrir alvarlegum veikindum og getur þurft að sækja mikla læknisþjónustu og fær mikið af lyfjum og greiðir þá allt að 157 þús. kr. yfir árið. Ef við tökum einfaldan samanburð, samanburður er alltaf erfiður á milli kerfa, en þá er það 100 þús. kr. hærra en það væri í Svíþjóð þar sem það er 57 þús. kr. þar sem eru bestu kjörin. Í Danmörku er það 79 þús. kr. og í Noregi 90 þús. kr. En alltaf er Ísland miklu, miklu hærra. Þakið á heilbrigðisþjónustunni er hærra hér og þá vantar lyfin inn í, sem eru 62 þús. kr.

Í yfirskrift undirskriftasöfnunarinnar segir að við eigum að vera með sambærilegt hlutfall af vergri landsframleiðslu og Norðurlöndin. Við sjáum hérna hvað þetta hlutfall af vergri landsframleiðslu skilar hinum Norðurlandaþjóðunum ódýrari heilbrigðisþjónustu. Þá ber kannski að hafa í huga að að öllum líkindum eru fleiri einstaklingar hér og fyrirtæki sem svíkja samfélagið um réttmætar skatttekjur með því að leyna þeim í skattaskjólum erlendis. En af því að lekinn sem uppvíst varð um nær ekki til alls kerfisins er auðvitað erfitt að alhæfa um það. Bara varðandi þá lögfræðiskrifstofu var Ísland í sérflokki varðandi einstaklinga sem komu sér undan því að greiða sinn skerf inn í sameiginlega sjóði. En ég ímynda mér að einhverjir þeirra að minnsta kosti nýti sér heilbrigðisþjónustu á Íslandi og við hin greiðum þá hlutfallslega hærri skerf fyrir þá en eðlilegt má teljast.

Það hefur verið erfitt að hér á landi hafa fleiri frestað að sækja sér heilbrigðisþjónustu vegna hás kostnaðar en annars staðar á Norðurlöndunum. Hér er það allt að 3% sjúklinga miðað við 0,5% annars staðar á Norðurlöndunum. Ef við förum í tekjulægsta hópinn eru það 6% þeirra sem veikjast þar sem fresta því að fara til læknis. Ef við lítum á tannlæknaþjónustuna, sem ekki er verið að taka hérna inn umfram það sem gildir fyrir börnin og var innleitt af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er fimmtungur tekjulágra sem frestar tannlæknaþjónustu. Það sem ég óttast, en get ekki lesið út úr gögnunum, er að þeir sem fresta heilbrigðisþjónustu eru ekki endilega þeir allra veikustu sem í dag lenda með þennan óheyrilega kostnað á herðunum. Það er fólk sem er svo alvarlega lasið að val um heilbrigðisþjónustu er þá bara val um að deyja. Það fólk fer og leitar sér þjónustunnar þó að það hafi ekki efni á henni. Það er fólk sem er með minna alvarleg veikindi en þó þannig að það skerði lífsgæði þess og frestun getur aukið mjög á vandann. Þess vegna finnst mér á engan hátt sannfærandi að verið sé að draga úr fjölda þeirra sem þurfa að fresta því að leita sér heilbrigðisþjónustu. Almennt heilt yfir eru um 120 þús. manns að fá aukinn kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, og það er mjög líklegt að þetta muni jafnvel geta, án þess að ég sé að fullyrða það, leitt til þess að þeim fjölgaði sem fresta að leita sér þjónustu. Það getur verið erfitt að komast að raun um hið sanna. Þetta er óljóst kerfi og eins og hæstv. ráðherra fór yfir í andsvari sínu áðan við mig er dálítið erfitt að sjá hvert útfallið verður. Þetta eru flókin og margslungin kerfi. Við vitum það auðvitað ekki núna þegar við leggjum af stað með fullri vissu hvort við séum að draga úr frestunum. Með einfaldri röksemdafærslu er líklegra að fleiri muni þurfa að fresta heilbrigðisþjónustu vegna aukins kostnaðar með upptöku nýs kerfis. Þó að fólk sé ekki að fresta heilbrigðisþjónustu í dag er alveg óþarfi, ég held að enginn sækist sérstaklega eftir því, að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustuna þó að langflestir séu algerlega sammála um að það sé fráleitt að fólk sem er sárlasið að berjast fyrir lífi sínu þurfi að greiða hundruð þúsunda vegna krabbameins. Það er auðvitað ekki ásættanlegt í velferðarsamfélagi. En við getum ekki sagt að þeir sem þegar eru að fresta töku heilbrigðisþjónustu eigi að draga úr kostnaði hinna alvarlega veiku. Það er hreinlega ekki kerfi sem mun verða nein sátt um og mun ekki ganga upp.

Ég hef ekki komið að því í ræðu minni, og gæti verið að ég komi í aðra ræðu, um það tilvísunarkerfi sem til stendur að innleiða. Það varðar tilvísunarkerfi fyrir börn, heimild til að innleiða almennt tilvísunarkerfi, en hér er verið að tala um tilvísunarkerfi fyrir börn og að þau fái gjaldfrjálsa þjónustu hjá sérfræðilæknum, ef ég skil þetta rétt, ef þau fá tilvísun, en annars borgi þau 2/3 af gjaldi. Þá er spurningin hversu hratt eigi að innleiða slíkt kerfi á meðan heilsugæslan er ekki burðugri en hún er. Það skapar auðvitað áhættu á aðstöðumun barna eftir því hvar þau búa og jafnframt aðstöðumun sem fer eftir tekjum foreldra. Allt ber þetta að sama brunni. Þessi breyting er í raun og veru óásættanleg nema við fáum allverulegt fé til viðbótar inn í kerfið. Það er aldeilis nauðsynlegt og allir eru sammála um það nema ríkisstjórnarflokkarnir, nema þeir lumi á því í nýrri ríkisfjármálaáætlun sem lögum samkvæmt hefði átt að vera búið að leggja fram.