145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að gefa mér tilefni til að skýra í þingsal afstöðu mína til skattaskjóla.

Afstaða mín til skattaskjóla er algjörlega skýr. Ég er andvígur þeirri starfsemi og ég tel nauðsynlegt að Ísland verði í fararbroddi í alþjóðlegri starfsemi skattaskjóla. Skattundanskot grafa undan velferðarsamfélaginu og þeim jöfnuði og sanngirni sem ég vil standa vörð um.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir rifjaði upp að ég kom forsætisráðherra til varna fyrir páska þegar þingmenn fóru að ræða aflandsfélag konu hans undir liðnum fundarstjórn forseta. Þótt það sé mín skoðun að fyrrverandi forsætisráðherra hefði átt að upplýsa fyrir fram um tengsl sín við aflandsfélag og hagsmuni félagsins gagnvart föllnu bönkunum þá fannst mér líka mikilvægt að því væri haldið til haga í umræðunni að það væri alls ekki ólöglegt að eiga aflandsfélög, að staðfesting endurskoðanda lægi fyrir um að sköttum hefði verið skilað í samræmi við lög og að gera þyrfti greinarmun á þeim aðilum sem töpuðu á falli bankanna og hinum, hrægammasjóðunum, sem keyptu kröfur til að græða á falli bankanna. Ég benti einnig á að fyrrverandi forsætisráðherra barðist fyrir því að kröfuhafar föllnu bankanna tækju á sig verulegar afskriftir og í því efni hefði hann fyrst og fremst borið hagsmuni þjóðarbúsins fyrir brjósti og að mér þætti ómaklegt ef ýjað væri að nokkru öðru. Þessum atriðum kom ég á framfæri, en með því var ég alls ekki að mæla starfsemi skattaskjóla bót á nokkurn hátt. Ég er einlæglega og alfarið andvígur starfsemi skattaskjóla og fagna þessu tækifæri til að árétta þá afstöðu mína hér. Ég tel afar mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og frumkvæði í því að setja lög gegn starfsemi skattaskjóla og er reiðubúinn að vinna að því markmiði í góðri sátt og samstarfi við hv. þingmenn allra flokka. (Gripið fram í.)


Efnisorð er vísa í ræðuna