145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort af því verði. Þetta mál með skíðasvæðið á Siglufirði er margslungið. Eins og hv. þingmaður veit, en ég vil upplýsa þingheim um, þarf að færa skíðalyftu og þá þarf að koma með nýjan veg upp að lyftunni. Það er líka ágreiningur um það hver eigi að borga fyrir færsluna á skíðalyftunni. Ég veit að sumir vilja meina að þetta sé slíkt ástand að leita eigi til sjóða sem eru í landinu, sem eru ætlaðir í annað. Það mál held ég að sé einhvers staðar uppi á skeri, sá hluti málsins. Eftir stendur vegamálið. Ég hef samt viljað tengja þetta saman þannig að við skulum færa lyftuna og þá þarf náttúrlega að koma vegur að lyftunni. Þetta mál er pínulítið eins og hænan og eggið, við vildum að það kæmi hér fram. En við erum ekki búin að finna restina, við vitum ekki hvort hænan eða eggið er á undan eða hvort þau geta verið samferða þarna þannig að hægt sé að renna sér á skíðum á Siglufirði.