145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í samgönguáætlun um að Dýrafjarðargöng verði næstu jarðgöng. Hér er boðað að framkvæmdir hefjist um mitt næsta ár og unnið verði af fullum krafti hálft árið og þaðan í frá og það mikla mannvirki klárað. Bendi þó á það sem ég sagði áðan um Dynjandisheiði.

Síðan er kafli sem við tölum stundum um. Að mínu mati eru það tvö til þrjú sveitarfélög á landinu sem búa ekki enn við almennilegar, varanlegar og nútímalegar vegabætur í vegamálum, það er Seyðisfjörður sem þarf að tengja með jarðgöngum og sunnanverðir Vestfirðir sem er þá framkvæmdin á sunnanverðum Vestfjörðum og ég gerði að umtalsefni líka Gufudalssveit, sem er inni sem betur fer. Þegar þeim framkvæmdum lýkur held ég að við getum verið mjög stolt með vegakerfið gagnvart öllum þéttbýlisstöðum á landinu.

Hv. þingmaður spyr mig út í Héðinsfjarðargöng, af því að ég gerði það að umtalsefni áðan, og þann viðsnúning sem hefur orðið í þeim sveitarfélögum eftir að göngin voru opnuð árið 2010, sem er í raun og veru eins og svart og hvítt. Byggðarlögin eru að taka við sér. Þetta er kannski besta dæmið um innviðaspýtingu, ef svo má að orði komast, um það sem ríkið á að gera, að styrkja innviði, svo kemur einkaframtakið og atvinnulífið og klárar hitt, og íbúarnir. Það er alveg hárrétt. En af því hv. þingmaður kemur stundum á Siglufjörð, sem betur fer, og keyrir þar um slæman veg um svokallaða Almenninga þar sem mikið jarðsig er, þá tel ég að við verðum að hugsa í mörgum árum fram í tímann, líkt og innanríkisráðherra sagði. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, og það er kannski ágætt að segja það undir þessum lið, að á næstu dögum mun ég ásamt mörgum öðrum þingmönnum leggja fram þingsályktunartillögu um að Vegagerðin hefji rannsóknir og skoðanir á framtíðartengingu frá Siglufirði í Fljót. Það eru, eins og ég hef séð, lítil snotur jarðgöng upp á 4,7 kílómetra á 10 kílómetra vegi, það er að vísu framkvæmd upp á 7 milljarða sem við skulum hugsa í náinni (Forseti hringir.) framtíð, 10 eða 15 ár eða eitthvað svoleiðis, ég ætla ekki að dæma um það. Það mundi (Forseti hringir.) gjörbreyta svæðinu þar og mundi þá ljúka þeim samgönguframkvæmdum og bótum á Tröllaskaganum til að styrkja svæðið enn frekar (Forseti hringir.) og losna þá við þennan erfiða og hættulega veg sem er um Almenningana.