145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, þingmanni Norðvesturkjördæmis, fyrir ræðu hennar um samgönguáætlun í þessar tíu mínútur sem við höfum. Eðlilega ræðir hún mest um það svæði sem hún kemur frá og þekkir, sem mér finnst ágætt og við hin hlustum og annað slíkt.

Ég get alveg tekið undir margt sem hv. þingmaður talaði um, möguleika á einkaframkvæmdum og gjaldtökum sem er liður í því að fara svipaða leið og Norðmenn hafa gert í mörg ár, að hafa það misjafnt eftir því hvort vegur er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi hvað varðar kostnaðarþátttöku almennings.

Það strandaði því miður á síðasta kjörtímabili og var ekki gert, að mínu mati, vegna þess að ýmsir sveitarstjórnarmenn höfðu ekki kjark til að styðja við þá hugmynd. Það væri margt öðruvísi í dag ef það hefði verið gert. En nóg um það.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann. Hún fagnar framkvæmd við Dýrafjarðargöng og talar svo um Dynjandisheiðina og allt það og það sem ég ræddi, sem eru litlar fjárveitingar til vegaframkvæmda á þessu áætlunartímabili. Spurning mín til hv. þingmanns er ósköp einföld: Er hv. þingmaður ánægður með þessa samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir? Mun hún styðja hana eða telur hún að nefndin þurfi að bæta töluvert í áður en hún kemur til síðari umr.?