145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna er skörulega mælt, að hv. 1. þm. Norðaust. styðji ekki þá áætlun eins og hún liggur fyrir, heldur þurfi að gefa í og það þurfi að gera. Því er ég innilega sammála. Ég benti í ræðu minni á leiðir til þess að auka tekjur fyrir þeim framkvæmdum sem ég held að sé alveg sjálfsagt að fara í.

Það kom fram hjá hv. þingmanni að plástursaðgerðir væru á umræddu svæði. Þetta er í raun og veru mjög lítill plástur, hann er ekki stór, hann þekur ekki mikið svæði eins og fram kemur, alveg sama hvort um er að ræða Dettifossveg, brýrnar eða annað sem þarna er inni, en miðað við langtímaáætlunina sem samþykkt var 2012, ef ég man rétt, er dálítill munur hér á. Það er fyrst og fremst út af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður í framkvæmdum hvað þetta varðar.

Í umræðum um samgönguáætlun hefur eðlilega, og hefur alltaf gerst, mest verið rætt um vegamálin og framkvæmdir í vegamálum, viðhald og þjónustu og allt það. Við höfum ekkert farið inn á flugmálin og hafnamálin en ekki er mjög mikið sett í hafnamálin. Ég bendi líka á að verið er að vinna eftir lögum sem var breytt í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem átti að gera það að verkum að hafnirnar væru sjálfbærar og ríkið hætti afskiptum af því, ég ætla nú ekki að lengja í þar. Ég fagna því að hv. þingmaður ætlar ekki að styðja þessa plástursgerð.