145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:48]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. innanríkisráðherra til hamingju með samgönguáætlun. Mikið hefur verið kallað eftir henni hér í þingsal á undanförnum mánuðum og árum og missirum. Það er mjög gleðilegt að hún sé komin þó að hún uppfylli kannski ekki alveg allar væntingar. Það er nú eins og það er, víða vantar fjármagn þrátt fyrir góðæri að sögn ríkisstjórnarinnar. Það er einhvern veginn þannig að við erum alltaf að tala um það sama hér í ræðustól. Við ræddum hér í síðustu viku um sjúkratryggingar og greiðsluþátttöku sjúklinga. Þar kom fram að það vantar fjármagn til þess að uppfylla allt það sem við mundum vilja í því.

Ég hef áhyggjur af ástandi vega- og samgöngumála á Íslandi. Ég kom að því, í andsvari við hv. þm. Vilhjálm Árnason, að ég væri sammála honum í því hvernig þetta væri kjördæmaskipt, að það væri ljóður á samgönguáætlun að hægt væri að kalla þetta samkeppni; keppni þingmanna um hver væri duglegastur í kjördæmapotinu. Það mætti alveg skoða það á síðasta kjörtímabili þegar Vaðlaheiðargöng voru samþykkt. Menn deildu mjög á þá ákvörðun. Þó að lítið sé hægt að gera við því í dag hefði ég frekar viljað sjá þá fjármuni fara í styrkingu vegakerfis á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem menn hafa mátt bíða áratugum saman eftir vegabótum og þannig mætti lengi telja. En svona er þetta og við verðum að búa við það. Þetta var ákveðið, við því er ekkert að gera, við verðum að lifa með því. En það er alveg ljóst að Vaðlaheiðargöng munu verða mikil samgöngubót á Norðurlandi eystra eins og öll göng. Þetta eru stærstu byggðamálin í dag; samgöngur og fjarskipti eru stærstu byggðamál í samfélögum í dag.

Ég var staddur í Færeyjum á síðasta ári en Færeyingar eru að fara að ráðast í gríðarlega jarðgangagerð frá Austurey til Straumeyjar. Aðalmarkmiðið er að halda stöðum í byggð á Austurey, Rúnavík og Götu og víðar, að það sé algjör forsenda þess að þarna dafni byggð. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt.

Samkvæmt skýrslu um umferðarslys á Íslandi 2015 var síðasta ár mjög slæmt hjá okkur í umferðinni. 16 manneskjur létust í umferðinni sem er fjórföldun frá árinu þar á undan, en þá létust fjórir. Það skýrist kannski líka af því að hér hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega. Í mínu kjördæmi, fyrst við erum að tala um kjördæmi, létust til dæmis sex af 16 og það létust sjö útlendingar í umferðinni á síðasta ári. Maður sér það sjálfur þegar maður keyrir um landið, og ekki síst í Suðurkjördæmi, að það er alveg gríðarleg umferð. Ég lýsti því hér áðan að það væri eins og að fara í óvissuferð að keyra inn í kjördæmið því að umferðin er alveg gríðarleg.

Ég fór á fund í Vík í Mýrdal um vegamál. Ólafur Guðmundsson hélt þar fyrirlestur um vegamál í því kjördæmi, en þau hafa verið í umræðunni. Þegar ég keyrði heim um kvöldið í mígandi rigningu og roki var ég með lífið í lúkunum alla leiðina aðallega út af blessuðum ferðamönnunum á bílaleigubílunum sem lækka ekki ljós og víkja sjaldan; þeir kunna bara ekki að fara um vegi á Íslandi ef ég á að segja alveg eins og er, eða mjög takmarkað.

Ég hef áhyggjur af fjármögnuninni. Það hefur komið fram í ræðum í dag að mikið fjármagn vantar inn í þetta dæmi. Ég horfi með töluverðum ugg til sumarsins. Ef allar spár ganga eftir, um að ferðamönnum fjölgi um 500.000, þá segi ég bara: Guð hjálpi okkur. Mér hefur líka orðið ljóst á ferðum mínum um kjördæmið að það vantar gríðarlega mikla peninga til löggæslumála. Ef það er eitthvað sem tryggir öryggi umfram annað þá er það hert löggæsla og sýnileiki lögreglu á vegum úti.

Það þarf vissulega líka að laga vegi. Það kemur fram í skýrslu frá Samgöngustofu að langversti vegarkafli landsins var á sínum tíma á Þrengslavegi. Síðan var farið í gagngerar bætur á honum, það hefur gert að verkum að tíðni slysa hefur hríðminnkað sem segir okkur að það er gríðarlega mikilvægt að fara í að laga vegi landsins. Þeir eru skelfilegir, það er eina orðið yfir það. Ég bý til dæmis á Suðurnesjum og keyri Reykjanesbrautina á hverjum einasta morgni í vinnuna. Það er lítið tilhlökkunarefni að leggja af stað á morgnana. Ég bý í Grindavík en Grindavíkurvegur er einn mest keyrði vegur landsins, eins og komið hefur fram í umræðunum. Ég hef upplifað það að mæta átta rútum á 8 km kafla, frá afleggjaranum inn í Bláa lón niður í Stapa. Það segir allt sem segja þarf um það.

Það verður að fara í gagngerar endurbætur. Við verðum að fá peninga til þess. Það er líka það sem maður leiðir hugann að. Hvernig náum við í peninga? Þessi ríkisstjórn hefur lækkað skatta markvisst frá því að hún komst að. Hún lagði 80 milljarða í skuldaleiðréttingu. (Gripið fram í: Sem tókst vel.) Það má deila um það hvort hún hafi tekist vel. Það eru peningar sem hefðu betur farið í að styrkja innviði samfélagsins.

Ég er ekki endilega á því að hér eigi að skattleggja allt undir drep, en á síðasta kjörtímabili voru gerðar miklar breytingar á sköttum. Skattar voru hækkaðir og skattkerfið lagað og var það til mikilla bóta, tel ég. Ég held að ríkisstjórnin hefði ekki átt að hrófla neitt við því alla vega til að byrja með því að það hefur komið í ljós að það er skortur á fjármagni í samfélaginu. Það er sama hvort um er að ræða samgöngukerfið, menntakerfið, löggæsluna, heilbrigðisþjónustuna — þetta er allt á sömu bókina lært, það vantar peninga til að reka þetta.

Í umræðum í síðustu viku nefndi ég sjúkratryggingar af því að hér hefur farið fram mikil umræða um aflandsfélög og skattaskjól; talið er að þar liggi um 600 milljarðar í eigu Íslendinga sem að mínum dómi ættu að skammast til að koma með þá heim og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. 80 milljarða svíkja menn undan skatti. Ég skil ekki hvernig fólk getur með góðri samvisku keyrt hér um og búið á Íslandi með það á bakinu að hafa svikið peningana undan skatti, mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja að þannig fólk sé til á Íslandi; fólk sem hugsar ekki um neitt nema sjálft sig og er skítsama um samfélagið. Það er ekki hægt að nefna þetta öðruvísi en að segja að þessu fólki sé skítsama um íslenskt samfélag. (Gripið fram í.) Nei, og við eigum ekki að sætta okkur við það. Sem betur fer er samgönguáætlun komin fram, og því ber að fagna, en það vantar í hana fjármagn. Það vantar fjármagn í íslenskt samfélag.

Við þurfum að vinna að því sameiginlega að fá fólk til að taka þátt í samfélaginu svo að við getum sinnt þessum málum af festu og þannig að sómi sé að. Skattar eru gjaldið fyrir að búa í siðuðu samfélagi. Við þurfum að finna út úr því hvað við eigum að hafa þá háa. Við þurfum að fara í samræður við þá sem hafa aðgang að auðlindinni okkar, hvað þeir telja sanngjarnt gjald fyrir aðgang að þeirri auðlind. Það er eitt af því sem hefur lækkað stórkostlega á þessu kjörtímabili og hefði ekki átt að gerast því að aldrei fyrr í sögu Íslands hefur sjávarútvegur gengið jafn vel, sem betur fer. Við eigum að vera stolt af því. En þeir sem hafa aðgang að því að veiða úr auðlind okkar eiga líka að vera stoltir af því að borga til samfélagsins svo að við getum rekið samfélag sem við getum verið stolt af. Við höfum allt til þess að bera, Íslendingar, það vantar ekkert upp á það.

Enn og aftur segi ég: Ég horfi með ugg til sumarsins en vona það besta því að við eigum öflugt fólk í löggæslunni og við eigum gott fólk í vegagerðinni. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að koma betri upplýsingum inn um ástandið á vegunum. Sem íbúi í Suðurkjördæmi og þingmaður þar hef ég ferðast mikið um kjördæmið. Hið gríðarlega álag á vegum er eitt helsta áhyggjuefni þeirra sem búa í kjördæminu og sveitarstjórnarmanna.

Í mínu kjördæmi er líka Landeyjahöfn sem er eilífðarverkefni, virðist vera, sem við þurfum að takast á við á næstu árum. Vonandi mun nýr Herjólfur breyta miklu þar og gera samgöngur til Eyja betri því að þetta er þeirra þjóðvegur. Hann verður að vera í lagi.

Ég ætla enn og aftur að óska hæstv. innanríkisráðherra til hamingju með að hafa lagt samgönguáætlun fram. Vonandi náum við að vinna úr þessu samhent í framtíðinni.