145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

skattaskjól á aflandseyjum.

[15:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ástæðan fyrir því pólitíska uppnámi sem við erum enn þá í miðju er auðvitað sögulegir viðburðir og kannski það stærsta pólitíska spillingarmál sem við höfum nokkurn tíma séð sem teygir arma sína um lönd og álfur og hefur sannarlega komið við hér á Íslandi. Til þess er horft hvernig Ísland og íslensk stjórnmál bregðast við þessari uppákomu og hvernig íslensk stjórnmál bregðast ekki við þessari uppákomu.

Það er auðvitað af þessu tilefni sem forsætisráðherra sagði af sér og nýr forsætisráðherra tók við með nýrri ríkisstjórn sem þó boðar að ekkert hafi í raun og veru breyst.

Hæstv. forsætisráðherra er í forustu hér á örlagatímum og þá erum við ekki að tala um forgangslista ríkisstjórnarinnar, hvaða kjördagur verður niðurstaðan eða hvenær fundur verður með stjórnarandstöðunni, heldur það sögulega hlutverk sem hann stendur frammi fyrir og verður kannski það eina sem stendur upp úr þegar litið verður til baka, þ.e. hvernig forsætisráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson tók á málum skattaskjóla og aflandsfélaga. Í hvaða farveg vildi hann sjá þessi mál sett? Tók hann undir kröfur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um ítarlega rannsókn á málinu sem hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur talað um með jákvæðum hætti? Eða er hann sammála hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, sem hefur slegið úr og í þegar kemur að því að bregðast við þeim fordæmalausu stærðum sem Ísland horfist í augu við og telur í raun og veru að nóg hafi verið að gert hingað til? (Forseti hringir.)

Spurningin er sem sagt þessi: Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra sem pólitískur forustumaður ríkisstjórnarinnar að bregðast við?