145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir það tækifæri sem við þingmenn fáum til að ræða þennan þjónustusamning. Þessi samningur er merkilegur fyrir margra hluta sakir og heyrir mjög til framfara fyrir okkur, bæði okkur sem hér störfum og eins þá sem nýta sér þjónustu RÚV og starfa hjá RÚV, til þess að skilja og fara yfir og átta okkur á því hvert markmið stofnunarinnar á að vera þannig að við sjáum hér með hvaða hætti hlutverk, skyldur og umfang starfsemi Ríkisútvarpsins verði framkvæmd í raun. Það er mikilvægt, þegar við erum að setja mikla fjármuni skattgreiðenda í verkefni, að við vitum hvað við ætlum okkur með því. Hvað er það sem við ætlum okkur að fá fyrir þá fjármuni, hvað er það sem skattgreiðendur eru í raun að kaupa? Þessi samningur segir okkur það. Það er mikilvægt og það er vel.

Það er ánægjulegt að sjá hversu djúpt er farið í hlutverkið í þessum samningi. Ég verð að segja að það er talsverður munur á þeim þjónustusamningi sem við hér ræðum og þeim hinum fyrri sem var í gildi. Við sjáum hér áherslur og stefnumótun um það hvernig stofnunin á að beita sér og er menningarhlutverkið þar efst á lista. Einnig er fjallað um almannavarnir sem við höfum oft rætt hér í þingsalnum, hvað felst í raun í hlutverki RÚV í almannavörnum. Hér er fjallað um það og gert ráð fyrir því að það sé fest enn frekar í sessi hvað nákvæmlega það er sem það hlutverk felur í sér og til hvers við getum ætlast af stofnuninni. Við sem búum í héruðum þar sem náttúruvá er yfirvofandi áttum okkur á mikilvægi þess að hafa stofnun sem þessa, en við eigum líka að geta gert kröfur um ákveðna þjónustu. Það er gott að hér sé leitast við að skilgreina það enn frekar.

Það er fleira sem telja má mikilvægustu punktana í þessum samningi. Margir hafa komið inn á það hlutverk sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna gagnvart börnum. Það er sérstakt fagnaðarefni að ráðherra og stofnunin skuli leggja sérstaka áherslu á íslenskt efni fyrir börn, í ákvæði 2.1.3 í samningnum. Sumir gætu sagt að það ætti að leggja enn meiri fjármuni og enn meiri áherslu á efni fyrir börn. Við höfum stundum talað um það í þessum sal að mikil verðmæti séu í því fólgin að vera á fámennu málsvæði, að eiga lítið tungumál, og þess vegna eru auknar skyldur á okkur að vernda tunguna. Við gerum það best með því að sjá til þess að æska þessa lands alist upp við að heyra góða íslensku og fái tækifæri til þess að horfa á íslenska afþreyingu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessi áhersla sé svo sterk í þessum samningi og algjörlega gert ljóst að þrátt fyrir að farið verði í niðurskurð á stofnuninni sé þetta atriði sem eigi að halda sér.

Þá er líka mjög mikilvægt, sem hér kemur fram, að auka eigi hlutfall norræns efnis í Ríkisútvarpinu. Við þekkjum það að áherslan á danska tungu, svo að hún sé tekin hér sérstaklega, hefur minnkað mjög í íslensku samfélagi. Við finnum það meðal annars í því alþjóðastarfi sem þingið tekur þátt í, það eru ekki mjög margir sem treysta sér til þess að nota danska tungu. Það er afturför. Meðan við ekki bjóðum upp á efni þar sem maður getur æft sig í því ágæta máli þá fer kunnáttunni aftur, maður þekkir það sjálfur. Þess vegna er þetta áhugaverð klausa í þessum samningi. Ég tel að við getum öll verið stolt af því að fjallað sé sérstaklega um það hér.

Talsvert hefur verið talað um Gullkistu Ríkisútvarpsins, en til framtíðar litið er gríðarlega mikilvægt að hér sé verið að festa það í sessi með hvaða hætti eigi að fara í að varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar sem hafa vissulega mikla þýðingu fyrir þjóðina okkar. Allir sem hafa verið að horfa á RÚV á þessu ári og sjá gömlu gullmolana sem verið er að sýna hafa áhuga á að sjá meira. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að verið sé að tryggja varðveisluna og vonandi að í framtíðinni verði hægt að fletta upp hvaða frétt sem er og hvaða áramótaskaupi sem er og kynna sér hver tíðarandinn var á hverjum tíma.

Heilt yfir er þessi samningur mikið fagnaðarefni. Við eigum öll að vera ánægð með að verið sé að stíga þetta skref, að skýra enn frekar hlutverk RÚV og til hvers er ætlast til framtíðar. Það kemur svolítið á óvart hér í umræðunni að menn séu óánægðir og hafi búist við því að við sæjum samning þar sem stórauknum fjármunum væri lofað inn í reksturinn. Ég held að það sé alls ekki hlutverk ráðherra né stofnunarinnar við gerð þjónustusamnings sem þessa að vera með slík fyrirheit. Þvert á móti. Verkefnið er að skilgreina hvert markmiðið með rekstrinum eigi að vera, hvaða þjónustu verið sé að kaupa og hvaða áherslum eigi að sinna í þeim störfum. Það var verkefnið við gerð þessa samnings. Það tel ég að hafi tekist sérstaklega vel hjá ráðherra og stofnuninni. Það verður spennandi og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þetta gengur allt saman á samningstímanum.