145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

upplýsingar um aflandsfélög og aflandskrónur.

[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefði verið ágætt að fá skoðun hv. þingmanns á þessu líka. Ég …(Gripið fram í.) Það er klassískt að draga það fram að maður þurfi sjálfur að …(ÓÞ: Svara …) Ef ég fengi tækifæri til að svara fyrir frammíköllum. Staðan er sú að hv. þingmaður segir: Getum við ekki reynt að finna út úr því hvort það séu einhverjir Íslendingar í einhverjum aflandsfélögum sem eru mögulega að fara að taka þátt í útboðunum? Ef svo er, hvað eigum við að gera í því?

Ég var að svara því í minni fyrri ræðu: Það gefur tilefni fyrir skattyfirvöld til að skoða hvort þar sé allt með felldu. Svo er sagt: Ef þeir vilja ekki gefa upp raunverulegt eignarhald sem þarna eiga í hlut, hvað eigum við þá að gera í því? Bíddu, ef við vitum ekki hvert raunverulegt eignarhald er, hvernig eigum við þá að geta fundið út úr því hvort þetta eru Íslendingar eða einhverjir aðrir? Mér finnst þessi spurning komin dálítið í hring. (Gripið fram í.) Það sem hv. þingmaður er í raun að segja er: Eigum við að koma í veg fyrir þátttöku einhverra tiltekinna aðila í útboði með aflandskrónur? (Forseti hringir.) Ef við höfum rökstuddan grun um að þar séu þeir þátttakendur sem eru að svíkja undan skatti á Íslandi (Forseti hringir.) treysti ég þeim stofnunum sem við höfum komið á fót til að ná í skottið á þeim, draga þá hingað heim, ákæra þá eða leggja á þá skatt samkvæmt íslenskum lögum.