145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að halda áfram þeirri umræðu sem hófst í morgun um þinghaldið og framgang þess, ekki síst eftir að þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, kallaði hér af aftasta bekknum fram í að kosningar gætu verið í apríl 2017. Þingmaðurinn er fulltrúi Framsóknarflokksins í forsætisnefnd og það vekur auðvitað enn á ný þær spurningar hvort það sé raunverulega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að drepa málum á dreif og reyna að fresta kosningum fyrst fram á haustið og síðan fram á vorið og hvort yfirlýsing fjármálaráðherra um að kosið verði í haust og það verði síðasta þingið á þessu kjörtímabili haldi eða haldi ekki.