145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á merkum frumkvöðli sem getið er um í Fréttablaðinu í dag. Hún heitir Herdís Storgaard. Hún hefur unnið ötullega að slysavörnum barna, verkefni sem áður átti heima hjá landlækni en fékk þar sjaldnast fjármagn sem skyldi. Þessi ágæti frumkvöðull ákvað að fara ein og sér í burtu þaðan og stofna sitt eigið fyrirtæki til þess að halda áfram þeirri vegferð sem hún hóf um slysavarnir og öryggi barna. Mörg sveitarfélög skelfdust um tíma þetta nafn, Herdís Storgaard, þegar hún kom og tók út leikvelli og dagheimili og benti á augljósar hættur sem fyrir voru á þeim stöðum, og töldu að kröfur hennar um bætt öryggi á þeim vígstöðvum væru ívið of miklar. Engu að síður gengu sveitarfélögin flestöll í að verða við þeim ábendingum sem komu frá þessari ágætu konu og öryggi barna og unglinga, barna aðallega, hvort heldur á leikvöllum við skóla eða við leikskóla hefur batnað til muna. Nú er þessi ágæti frumkvöðull að kynna verkefni sín á erlendri grund og er það vel.

Mér þykir miður, virðulegi forseti, að í ljós kom að Miðstöð slysavarna barna skuli eingöngu vera styrkt af tveimur fyrirtækjum á Íslandi og ekki renni króna frá sveitarfélögum í landinu né heldur ríki til þessarar merku starfsemi. Ég vil því beina þeim tilmælum mínum til hv. fjárlaganefndar að hún íhugi hvort þessi þáttur í öryggi barna og unglinga eigi ekki heima með einum eða öðrum hætti á fjárlögum.


Efnisorð er vísa í ræðuna